Átök milli hersins og mót­mælenda í Mjanmar héldu á­fram í gær þar sem fleiri en 80 manns létust þar í landi í gær að sögn eftir­lits­sam­taka fyrir pólitíska fanga, AAPP. Öryggis­sveitir skutu meðal annars hand­sprengjum að mót­mælendum í bænum Bago, sem er skammt frá Jangún.

Að því er kemur fram í frétt Reu­ters um málið létust 82 í á­tökunum í gær en illa gekk að stað­festa þann fjölda þar sem öryggis­sveitirnar höfðu flutt líkin á af­markaðan stað sem var undir stöðugu eftir­liti. Skot­hríðin í bænum hófst um morguninn og stóð stans­laust yfir fram yfir há­degi.

„Þetta er eins og þjóðar­morð. Þau eru að skjóta á hvern skugga,“ sagði Ye Htut, einn skipu­leggjandi mót­mælanna í Bago, í sam­tali við My­anmar Now í gær en herinn hefur gefið út hand­töku­skipun gegn honum. „Mér líður eins og þau séu að fremja þjóðar­morð á eigin í­búum.“

Fjöl­margir í­búar bæjarins hafa nú flúið heimili sín vegna málsins en mótmæli héldu áfram í bænum í dag.

Ber ekki saman um fjölda látinna

Stans­laus mót­mæli hafa nú staðið yfir í Mjanmar frá því að herinn tók völdin þar í landi þann 1. febrúar síðast­liðinn en AAPP hafði gefið það út fyrir daginn í dag að 618 manns hafi látist í á­tökunum hingað til. Þannig má gera ráð fyrir því að alla vega 700 manns hafi látist í heildina.

Her­stjórnin segir aftur á móti að þær tölur séu stór­lega ýktar og að herinn hafi skráð and­lát 248 al­mennra borgara og 16 lög­reglu­manna. Þá hafa þau al­farið neitað því að hríð­skota­byssur hafi verið notaðar af sveitum á þeirra vegum, líkt og margir hafa haldið fram.

Leið­togar her­stjórnarinnar sögðu í gær að dregið hefði út mót­mælum síðast­liðna daga þar sem fólkið vildi frið og hétu því að „sann­gjarnar“ kosningar fari fram innan tveggja ára. Fjöl­margir hafa þó kallað eftir því að al­þjóða­sam­fé­lagið skerist í leikinn.