Lögregluþjónn sem var í tímabundnu leyfi vegna blóðugrar handtöku í Hafnarfirði í nóvember í fyrra heldur starfi sínu en hefur þurft að greiða sekt fyrir athæfi sitt.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari segir í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að málinu hafi verið lokið með sektargerð.

Fjallað var um handtökuna í forsíðufrétt Fréttablaðsins 6. nóvember 2020. Þrír sjónvarvottar sögðu að sér hafi ofboðið framganga lögregluþjóna. Karlmaður hafi ítrekað verið barinn í höfuðið með kylfu og verið barinn áfram liggjandi meðvitundarlaus í blóði sínu að sögn þeirra.

Mynd frá vettvangi.
Mynd/Aðsend

Sveiflaði kylfunni ítrekað

Stöðvarstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði staðfesti að til átaka hafi komið milli lögreglunnar og manns sem hafi verið stöðvaður vegna gruns um vörslu fíkniefna og sagst vera með COVID-19. Var þá kallað eftir COVID-bílnum. Að sögn sjónarvotta braut lögreglan rúðu í bílnum og í kjölfarið hófust átök.

Sjónarvottur lýsti því hvernig einn lögregluþjónanna beitti piparúða, annar fékk efnið í augun og sveiflaði kylfu sinni og sló manninn ítrekað í höfuðið sem féll í fangið á lögregluþjóninum og svo á götuna. Allir fjórir lögregluþjónarnir héldu áfram að berja manninn eftir að hann missti meðvitund að sögn vitna.

„Ég skil að lögreglan þurfi að verja sig í átökum, en ekki halda áfram að berja manninn þegar hann er kominn í jörðina,“ lýsti eitt vitnanna í samtali við Fréttablaðið. Hér fyrir neðan má sjá myndbanda frá vettvangi.

Málið fellt niður

Aðspurð um stöðu málsins segir Kolbrún að málið hafi í fyrstu verið fellt niður en hafi að lokum endað með sektargerð þar sem lögreglumaðurinn sást loka kylfu sinni með því að ýta henni í bak mannsins.

„Héraðssaksóknari felldi málið niður en sú ákvörðun var kærð til ríkissaksóknara. Ríkissaksóknari staðfesti niðurfellingu að mestu leyti en felldi hana niður að því er varðaði það að kærði hafi lokað kylfu sinni með því að ýta henni í bak kæranda. Þeim þætti var svo lokið með sektargerð,“ segir Kolbrún við Fréttablaðið.

Ekki liggur fyrir hvort málið fari lengra hjá nefnd um eftirlit með lögreglu þar sem það hefur verið í bið.

„Málið er í bið hjá nefndinni þar sem það er til meðferðar hjá ákæruvaldinu,“ segir Margrét Lilja Hjaltadóttir, lögfræðingur hjá nefnd um eftirlit með lögreglu.

Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari.
Fréttablaðið/Anton Brink