Fjöl­miðlar vestan­hafs fengu inn­sýn inn í rann­sókn lög­reglunnar á voða­skotinu í Nýja Mexíkó er lög­reglan lagði fram leitar­heimild fyrir dóm­stólum í gær. Þar kemur meðal annars fram að föt stór­leikarans, Alec Baldwin, sem blóð hafði slest á voru tekin sem sönnunar­gögn í rann­sókn lög­reglu, en BBC greinir frá.

Lög­reglan lagði einnig hald á skot­hylki og önnur vopn á settinu.

Í dóms­skjölunum kemur fram að Baldwin hafði verið tjáð af að­stoðar­leik­stjóra kvik­myndarinnar Rust að um leik­muna­byssu væri að ræða. Að­stoðar­leik­stjórinn Dave Halls vissi ekki að byssan væri hlaðin og gaf til kynna hún væri ekki hlaðin með því að kalla „köld byssa“ eða Cold gun á ensku.

Konan sem lést hét Halyna Hutchins var 42 ára gömul og kvik­­mynda­­stjóri Rust. Hún var flutt með sjúkra­flugi á Uni­versity of New Mexico spítalann, þar sem hún var úr­­­skurðuð látin. Lög­­reglu­­stjórinn Juan Rios sagði leikarann hafa gefið sig fram sjálf­viljugur.

Hutchins var meðal annars nefnd rísandi stjarna af American Cinema­tograp­her árið 2019. Eftir að fréttir bárust af and­láti hennar fóru sam­úðar­kveðjur að berast á sam­fé­lags­miðlum til fjöl­skyldu og vina.

Baldwin var í miklu upp­námi eftir slysið. Enginn hefur verið á­kærður vegna at­viksins að svo stöddu.