Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Þröstur Ólafsson, hagfræðingur og fyrrverandi framkvæmdastjóri verkalýðsfélagsins Dagsbrúnar áttu í orðahnippingum á Facebook um kjarabaráttu Eflingar og viðræður við Reykjavíkurborg.

Þröstur segir að kjarakröfur Eflingar ættu ekki að gera getgátur og ættu að vera aðgengilegar almenningi og segir að nú sé verið að gera tilraun til að endurreisa sósíalistaflokk með gömlum slagorðum og úreltum uppskriftum. Hann sakar Eflingu um nota ungabörn sem eins konar gísla til að brjóta upp kjarasamninga. Sólveig Anna segir Þröst vera með forréttindablindu og að atvinnurekendur hljóti að harma það að menn eins og Þröstur séu ekki lengur við völd í félagi láglaunafólks.

„Nota á ungabörn sem eins konar gísla“

Þröstur birti um helgina færslu þar sem hann furðaði sig á því að Efling hefði neitað að semja við borgina þrátt fyrir að önnur verkalýðsfélög höfðu samið. Hann hefði haldið því fram að Starfsgreinasambandið hefði gert samning á svipuðum nótum og Efling hefði gert við Samtök atvinnulífsins. Eftir að fjölmiðlar birtu upplýsingar um kröfugerð Eflingar á hendur borginni, hafi komið í ljós að krafan hafi verið margfalt hærri en þeir samningar sem Starfsgreinasambandið og samninganefnd sveitarfélaganna höfðu samið um.

Blóð­þyrstari tæfur en okkur í Eflingu eru víst vand­fundnar.

„Samhliða þessari kröfugerð var vitnað í greinargerð sem fylgdi, sem var bólgin af fúkyrðum og gömlum slagorðum frá upphafsárum evrópskrar verkalýðshreyfingar í árdaga síðust aldar. Er þetta strategía nýja Sósíalistaflokksins? Brjóta upp lífskjarasamninginn með því að einangra baráttuna við einn viðsemjanda (borgina) sem er stór, en er jafnframt með fjölda félagsmanna Eflingar í mjög viðkvæmum umönnunarstörfum (leikskólunum). Nota á ungabörn sem eins konar gísla til að brjóta upp kjarasamninga á landsvísu og fá yfir okkur eina sæta gengisfellingu. Krónan mun ekki aðstoða Sósíalistaflokkinn í þessum skollaleik. Það hlaut að koma að því að stóru slagorðin frá 2018 yrðu virkjuð að lokum,“ skrifaði Þröstur.

„Þessar helvítis kellingar alltaf til vandræða“

Sólveig Anna segir færslu Þrastar einkennast af kvenfyrirlitningu og stéttahroka.

„Nú höfum við, samninganefnd Eflingar við Reykjavíkurborg, gerst sek um mikinn glæp og af honum munu svo leiða margir aðrir stórglæpir. Enda ætlum við að nota ungbörn sem gísla til að brjóta upp kjarasamninga á landsvísu. Blóðþyrstari tæfur en okkur í Eflingu eru víst vandfundnar; við, fólkið sem hefur helgað sig umönnunarstörfunum, við, fólkið sem gætir barna samfélagsins og menntar, við, fólkið sem annast og aðstoðar gamalt fólk; á endanum erum það við, láglaunafólkið, vinnufólkið, mestmegnis konur, sem að skemmum allt. En ekki hvað, þessar helvítis kellingar alltaf til vandræða.“

Hún velti fyrir sér hvort Þröstur gerði sér grein fyrir því að enn væri ekki komin niðurstaða um hvernig stytting vinnuvikunnar muni hafa áhrif á vaktavinnufólk og að tilboð Reykjavíkurborgar til Eflingar hafi verið lélegra en lífskjarasamningurinn.

Þvaður og illmælgi gagnvart vinnuaflinu

„Kröfugerð Eflingar var samin af fólkinu sem að vinnur vinnuna, fólkinu sem að þekkir nákvæmlega og innilega hvað það þýðir að vera láglaunamanneskja í reykvísku hírarkíunni, með borgarstjóra sem sinn æðsta yfirmann. Samninganefnd Eflingar er mönnuð fólki sem að vinnur við undirstöðustörfin í borginni, fólki af leikskólunum, úr skólunum, sorphirðunni, heimaþjónustunni. Hversu ömurlegt er að verða vitni að því að fyrrum valdamaður úr hreyfingu vinnandi fólks skuli leyfa sér annað eins þvaður og aðra eins illmælgi gagnvart vinnuaflinu,“ skrifar Sólveig Anna.

Á­burður um kven­fyrir­litningu, for­réttindi og sæl­kera­líf særa mig ekki lengi.

Sólveig Anna segir að karlar hafi ekkert gert fyrir láglaunakonur þegar þeir voru við völd og að þeir ætli sér nú að reyna að eyðileggja baráttu kvenna fyrir réttlæti og virðingu.

„Því við erum í þeirra huga ekkert nema vinnu-hryssur, brúkaðar ókeypis í gegnum aldirnar og fáránlegt að borga okkur neitt meira en skít, fáránlegt að leyfa okkur að éta matinn sem að við eldum, fáránlegt að leyfa okkur að komast í gegnum æfina með smá pening til að eyða í okkur sjálfar, fáránlegt að leyfa okkur sjálfum að ákveða hvernig við berjumst og fyrir hverju.“

Sólveig sakar Þröst um forréttindablindu og segir að hræðslan við upprisu láglaunakonunnar vera algör. „Svona álíka mögnuð og algjör og harmur atvinnurekenda hlýtur að vera þegar þeir þurfa að horfast í augu við að menn eins og Þröstur eru ekki lengur við völd í félagi láglaunafólks. Hlýtur að vera agalegt að sá tími sé liðinn og komi aldrei aldrei aftur.“

Tilraun með að endurreisa sósíalistaflokk

Þröstur svaraði Sólveigu Önnu í færslu sem hann birti í dag þar sem hann sagðist hafa fengið yfir sig galldembu. Hann segir það í samræmi við íslenska umræðuhefð að hjólað væri í hann persónulega.

„Áburður um kvenfyrirlitningu, forréttindi og sælkeralíf særa mig ekki lengi. Sólveig Anna hafði ekki fyrir því að leiðrétta meintar missagnir mínar eða rangtúlkanir. Er ekki viðkvæmur fyrir því að leiðrétta sjálfan mig, sé ég að fara með fleipur,“ skrifar Þröstur og bætir við að kjarakröfur Eflingar ættu ekki að gera getgátur og ættu að vera aðgengilegar almenningi.

„Okkur koma þær við, því átök um þær geta snert afkomu okkar sem fyrir utan við stöndum. Verkalýðshreyfingin á því miður engan málsvara á Alþingi. Síðustu tengsl við verkalýðshreyfinguna voru slitin á ríkisstjórnarárum Jóhönnu Sig. Nú er verið að gera tilraun með að endurreisa sósíalistaflokk,“ segir Þröstur og vonar að viðsemjendur takist sameiginlega að finna leið til að bæta kjör ummönnunarstétta ásættanlega.