Blóðsonur Tryggva Rúnars Leifssonar, Arnar Þór Vatnsdal, krefst 85 milljóna í bætur á grundvelli laga um heimild forsætisráðherra til að greiða bætur vegna sýknudóms Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum. Kröfunni er beint að forsætisráðherra og staðfestir Katrín Jakobsdóttir að krafan hafi verið móttekin. Henni hafi verið vísað til setts ríkislögmanns sem hafi hana til skoðunar.

Arnar Þór er fæddur árið 1973 og var tveggja ára gamall þegar faðir hans var hepptur í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á hvarfi Guðmundar Einarssonar. Tryggvi Rúnar var látinn laus úr fangelsi í lok árs 1981, þegar sonur hans var á áttunda aldursári. Hann var ættleiddur árið 1985, þá tólf ára gamall.

Þegar hafa verið greiddar út 774 milljónir króna í bætur á grundvelli laganna til þriggja hinna sýknuðu sem eru á lífi og til aðstandenda Sævars Marinós Ciesielski og Tryggva Rúnars sem látnir eru.

Í lögunum segir að bætur skuli greiðast til þeirra sýknuðu sem eru á lífi og á sama grundvelli til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru. Samkvæmt erfðalögum fellur erfðaréttur niður við ættleiðingu en í framangreindum lögum um bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála er ekki minnst á rétt erfingja heldur eftirlifandi maka og barna.

Í kröfu Arnars Þórs, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, segir að óumdeilt sé að Arnar Þór sé sonur Tryggva Rúnars og að íslenska ríkið hafi ekki greitt honum bætur vegna ólögmætrar frelsissviptingar föður hans.

Um fjárhæð kröfu sinnar styðst Arnar við greinargerð með lögunum þar sem fram kemur að miða skuli meðal annars við lengd frelsissviptingar. Og á þeim grundvelli komi um 171 milljón í hlut aðstandenda Tryggva Rúnars.

Í kröfu Arnars er miðað við að bótum til aðstandenda Tryggva Rúnars hafi verið skipt jafnt milli eftirlifandi eiginkonu Tryggva Rúnars og dóttur, sem Tryggvi hafi ættleitt, þannig að hvor um sig hafi fengið 85 milljónir í bætur og krefst Arnar Þór sömu fjárhæðar.

Er ríkinu veittur frestur til 15. júní til að verða við kröfunni en að öðrum kosti áskilur hann sér rétt til málshöfðunar án frekari viðvörunar.