Arnar Þór Vatnsdal, blóðsonur Tryggva Rúnars Leifssonar, mun ekki fá bætur frá íslenska ríkinu vegna ólögmætrar frelsissviptingar föður síns en líkt og Fréttablaðið hefur áður greint frá fór Arnar fram á 85 milljón krónur í bætur eftir sýknudóm Hæstaréttar í Guðmundar- og Geirfinnsmálum.
Íslenska ríkið hafnaði kröfu Arnars síðastliðinn júní og fór málið þá fyrir dómstóla.
Arnar Þór var aðeins tveggja ára gamall þegar Tryggvi Rúnar var hnepptur í varðhald en hann var ættleiddur þegar hann var tólf ára gamall, fjórum árum eftir að Tryggvi Rúnar var látinn laus úr fangelsi.
Í kröfu Arnars kom fram að það væri óumdeilanlegt að Arnar væri sonur Tryggva en hann hafi ekki fengið neinar bætur sem aðstandandi. Eiginkona Tryggva og dóttir, sem Tryggvi hafði ættleitt, fengu hvor um sig 85 milljónir í bætur og því krafðist Arnar þess sama.
Vísað var til þess að þrátt fyrir að erfðaréttur fellur niður við ættleiðingu samkvæmt erfðalögum, sé ekki kveðið á um erfingja í lögum um bætur vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála, heldur aðeins eftirlifandi maka og barna.
Skorti lagaheimild
Íslenska ríkið byggði sitt mál aftur á móti á því að lagaheimild skorti til greiðslu miskabóta til Arnars og sögðu lögin um Guðmundar- og Geirfinnsmálin ekki ná til ættleiddra barna. Í ljósi þessa væri ekki hægt að greiða Arnari bætur.
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að niðurstöðu í málinu í gær og féllst þar með á rök íslenska ríkisins. Úrskurðurinn var birtur á vef dómstólsins í dag en Vísir greindi fyrst frá málinu. Arnar þarf að greiða íslenska ríkinu 500 þúsund krónur í málskostnað en gjafsóknarkostnaður ríkisins greiðist úr ríkissjóði.