Arnar Þór Vatns­dal, blóð­sonur Tryggva Rúnars Leifs­sonar, mun ekki fá bætur frá ís­lenska ríkinu vegna ó­lög­mætrar frelsis­sviptingar föður síns en líkt og Frétta­blaðið hefur áður greint frá fór Arnar fram á 85 milljón krónur í bætur eftir sýknu­dóm Hæsta­réttar í Guð­mundar- og Geir­finns­málum.

Íslenska ríkið hafnaði kröfu Arnars síðastliðinn júní og fór málið þá fyrir dómstóla.

Arnar Þór var að­eins tveggja ára gamall þegar Tryggvi Rúnar var hnepptur í varð­hald en hann var ætt­leiddur þegar hann var tólf ára gamall, fjórum árum eftir að Tryggvi Rúnar var látinn laus úr fangelsi.

Í kröfu Arnars kom fram að það væri ó­um­deilan­legt að Arnar væri sonur Tryggva en hann hafi ekki fengið neinar bætur sem að­standandi. Eigin­kona Tryggva og dóttir, sem Tryggvi hafði ætt­leitt, fengu hvor um sig 85 milljónir í bætur og því krafðist Arnar þess sama.

Vísað var til þess að þrátt fyrir að erfða­réttur fellur niður við ætt­leiðingu sam­kvæmt erfða­lögum, sé ekki kveðið á um erfingja í lögum um bætur vegna Guð­mundar- og Geir­finns­mála, heldur að­eins eftir­lifandi maka og barna.

Skorti lagaheimild

Ís­lenska ríkið byggði sitt mál aftur á móti á því að laga­heimild skorti til greiðslu miska­bóta til Arnars og sögðu lögin um Guð­mundar- og Geir­finns­málin ekki ná til ætt­leiddra barna. Í ljósi þessa væri ekki hægt að greiða Arnari bætur.

Héraðs­dómur Reykja­víkur komst að niður­stöðu í málinu í gær og féllst þar með á rök íslenska ríkisins. Úr­skurðurinn var birtur á vef dóm­stólsins í dag en Vísir greindi fyrst frá málinu. Arnar þarf að greiða ís­lenska ríkinu 500 þúsund krónur í máls­kostnað en gjaf­sóknar­kostnaður ríkisins greiðist úr ríkis­sjóði.