„Þetta kemur ekkert allt í einu. Frá haust­mánuðum á síðasta ári hefur verið mikil notkun á blóð­hlutum og við höfum átt erfitt með að halda uppi lág­mark­s­la­ger, því við þurfum að eiga lág­marks­birgðir,“ segir Birgitta Haf­steins­dóttir, hjúkrunar­fræðingur, í sam­tali við Frétta­blaðið en hún hefur séð um markaðs­mál hjá Blóð­bankanum.

Snemma í júní sendi Land­spítalinn út á­kall til lands­manna um að gefa blóð hjá Blóð­bankanum. Í til­kynningu sem spítalinn sendi út 8. júní sögðu þau stöðuna vera graf­alvar­lega og að la­ger­staðan hafi verið mjög lág undan­farið.

„Við byrjum nánast alltaf á lé­legum lager á mánu­dögum eftir helgina. Það hefur verið þannig næstum því síðan á haust­mánuðum,“ segir Birgitta og bætir við að eftir að þau fóru að aug­lýsa eftir nýjum blóð­gjöfum fór Blóð­bankinn að verða sýni­legri.

Að­spurð að því hvort margir hafi svarað á­kallinu frá Land­spítalanum svarar Birgitta því játandi. „Það er bara mjög góð að­sókn núna,“ segir hún.

Birgitta segir Blóð­bankann sjá fyrir endann á þessum blóð­skort. „Þetta er lang­hlaup. Við þurfum alltaf að fá nýja blóð­gjafa en líka að við­halda þeim sem við höfum núna,“ segir hún.

Co­vid setti strik í reikninginn hjá Blóð­bankanum. Blóð­gjöfum fjölgaði ekki jafn hratt í far­aldrinum. „Það var ekki hægt að fara í markaðs­starf, eins og að kynna Blóð­bankann í skólum eða á vinnu­stöðum, síðast­liðin tvö ár,“ segir Birgitta.

Samkvæmt upplýsingum frá Blóðbankanum eru um sex þúsund virkir blóðgjafar á Íslandi. Frá 1. júní og til dagsins í dag hefur þeim hóp fjölgað um 321 manns.

Segir Blóðbankann mega bæta sig

„Það eina sem við mættum bæta okkur í þegar lagerinn er svona lár, er að stytta bið­tíma fyrir við­tal við nýja blóð­gjafa,“ segir Birgitta. Hún segir þó lagerinn vera á betri stað en fyrir nokkrum vikum. „Þetta er allt á upp­leið og blóð­gjafar hafa svarað okkar á­kalli vel,“ bætir hún við.

Bið­tími nýrra blóð­gjafa var að nálgast mánuð og Birgitta segir það vera allt of langt. Bið­tíminn á Akur­eyri er ekki jafn langur og í Reykja­vík. „Þar getur þú komið daginn eftir svona oftast,“ segir Birgitta.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra setti landsmönnum gott fordæmi með heimsókn sinni í Blóðbankann um daginn þar sem hann gaf blóð.
Fréttablaðið/ERNIR

Konur gefa minna blóð en karlar á Ís­landi

Á hinum Norður­löndunum hefur skipting kynja í blóð­gjöf verið skipt til helminga, um 50 prósent karlar og 50 prósent konur. Birgitta segir þetta ekki vera stöðuna á Ís­landi. „Hér á Ís­landi eru þetta sex karl­menn á móti tveimur konum sem gefa blóð,“ segir hún og bætir við að Blóð­bankinn hafi enga skýringu á hvers vegna þetta er svona.

„Við höfum verið að efla konur til að koma og gerast blóð­gjafar en þær eru oft kannski hræddar að þær væru járn­litlar á með­göngu og halda því að þær séu það alltaf, eða eitt­hvað svo­leiðis,“ segir Birgitta.

Bjóða upp á leigu­bíla vegna bíla­stæða­skorts

Í Reykja­vík býðst blóð­gjöfum að fá far með leigu­bílum að höfuð­stöðvum Blóð­bankans að Snorra­braut 60 í Reykja­vík, þeim að kostnaðar­lausu. Birgitta segir þetta vera nýtt en unnið var við hliðina á bíla­stæðum Blóð­bankans og því getur verið erfitt að komast að stæðum.

„Við fengum á­bendingu frá blóð­gjöfum um að það væri erfitt að fá bíla­stæði og að það væri stundum að hindra þá í að koma á Snorra­braut og því brugðu þau á það ráð að þeir sem eru að koma í blóð­gjöf á Snorra­braut mættu taka leigu­bíl,“ segir Birgitta.