Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir vísbendingar um að blóðmerahald hafi svipuð áhrif á ímynd Íslands og ferðaþjónustuna eins og hvalveiðar.

Þetta sagði hún í viðtali í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Mikið hefur verið fjallað um blóðmerahald eftir að svissnesk dýraverndarsamtök, Animal Welfare Foundation, birtu heimildarmynd um blóðtöku á íslenskum sveitabæjum og dýraníð sem þau urðu vitni að á tveimur sveitabæjum.

Í kjölfarið setti ráðherra á laggirnar sérstakan starfshóp til að taka fyrir blóðmerahald á Íslandi, Matvælastofnun setti af stað rannsókn og vísaði málinu til lögreglunnar, bann á blóðmerahaldi kom aftur til umræðu á Alþingi.

Blóðmerahald snýst um að taka blóð úr fylfullum hryssum til að framleiða frjósemislyf sem notað er í verksmiðjubúskap erlendis til að auka afkastagetu svína- og kúabúa. Blóðtökubændur sjá um hestana og fá dýralækni til að draga blóð úr hryssunum, sem er svo selt til lyfjatæknifyrirtækisins Ísteka sem selur það svo til erlendra fyrirtækja og bænda.

Setja spurningamerki við að ferðast til Íslands

Rannsóknir hafi sýnt fram á að hvalveiðar hafi valdið miklum skaða og stefnt viðskiptahagsmunum Íslands erlendis í voða.

„Nú eru farnar að berast fréttir af fólki víða um heim, sem setur spurningamerki við það að ferðast til Íslands, vegna fregna af illri meðferð á dýrum í formi blóðmerahalds,“ skrifar Bjarnheiður í grein á Vísi.

Bjarnheiður sem raunhæfur fjöldi að Ísland missi minnst 7700 ferðamenn vegna fregna um blóðmerahald.

Fregnir af blóðmerahaldi á Íslandi hafa ekki einungis áhrif á ferðaþjónustu heldur einnig viðskipti og útflutning á íslenskum vörum og hestahagkerfið að sögn Bjarnheiðar. Hún hvetur yfirvöld til að skoða heildarhagsmuni Íslands.

Í grein Bjarnheiðar kemur fram að útflutningsverðmæti á blóði úr fylfullum hryssum séu áætluð um tveir milljarðar króna á ári en til samanburðar eru útflutningstekjur af 7700 ferðamönnum sem sækja Ísland heim um tveir milljarðar króna.

„Þó að umfjöllun um blóðmerahald fæli aðeins um 7700 ferðamenn frá því að koma til landsins þá eru þessir tveir milljarðar úflutningstekna tapaðir,“ skrifar Bjarnheiður. Reynslan af áhrifum hvalveiða á ímynd Íslands og ferðaþjónustu sýni að 7700 sé fyllilega raunhæfur fjöldi.

„Verði áhrifin enn meiri en það, sem er mjög líklegt, er blóðmerahald farið að valda beinum efnahagslegum skaða.“

Sigrún Brynjarsdóttir, hrossaeigandi sem býr í Bandaríkjunum, sagði í samtali við Fréttablaðið í desember að hestaeigendur vestanhafs væru að sniðganga allt íslenskt vegna málsins.

„Viðhorf þeirra hefur ekki breyst gagnvart íslenska hestinum meira gagnvart Íslandi og að þetta sé leyft,“ sagði Sigrún.

Markaðsverkefni um íslenska hestinn var ýtt úr vör í apríl 2015 með aðkomu helstu samtaka og hagsmunaaðila í greininni, Íslandsstofu og stjórnvalda.
Fréttablaðið/Getty images

Jelena Ohm, verkefnastjóri Horses of Iceland, sagði sömuleiðis að uppljóstrunin hafa haft neikvæð áhrif.

„Við höfum lengi verið að byggja upp ímynd íslenska hestsins og það gekk mjög vel. Við slógum met þrjú ár í röð og nú í ár var mesti útflutningur á íslenska hestinum í íslenskri sögu, um 3200 hross. Þetta var búin að vera mjög jákvæð þróun og svo kom þessi skellur,“ segir Jelena.