Blóðmerahald verður áfram stundað á Íslandi en nokkrar breytingar verða gerðar á fyrirkomulaginu.

Á næstu þremur árum verður fylgst gaumgæfilega með starfseminni og lagt mat á framtíð hennar. Efnt verður til sérstakrar umfjöllunar um siðferðislega álitamál tengd starfseminni.

Þetta er niðurstaða Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra en hún byggir ákvarðatöku sína á skýrslu starfshóps síns sem skilaði af sér vinnu nú um mánaðarmótin.

Starfshópurinn skoðaði starfsemi, regluverk, eftirlit og löggjöf í kringum blóðtöku úr fylfullum hryssum og var skipaður í fyrra eftir að erlend dýraverndarsamtök birtu skýrslu og heimildarmyndband sem sýndi dýraníð við blóðtöku á íslenskum sveitabæjum.

Ísland er aðeins eitt af fjórum löndum í heiminum þar sem blóðmerahald er stundað. Blóð er tekið úr fylfullum hryssim og frjósemislyf er framleitt úr því sem er notað í verksmiðjubúskap erlendis til að auka afkastagetu svína- og kúabúa.
Myndir: Aðsendar

Ísteka þarf að sækja um leyfi

Líftæknifyrirtækið Ísteka, eina fyrirtækið á Íslandi sem kaupir blóð af bændum, þarf því að sækja um leyfi frá MAST til þess að geta haldið áfram sinni framleiðslu. Blóðtökutímabilið hefst á ný í haust en samningar Ísteka við bændur eru enn í lausu lofti og illa gengur að semja að sögn bænda.

Arnþór Guðlaugsson er framkvæmdastjóri Ísteka.
Fréttablaðið/Samsett mynd

Blóðtaka á fylfullum hryssum verður aftur gerð leyfisskyld eins og hún var til ársins 2020 en nú á grundvelli nýrrar reglugerðar sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun setja sem gildir til næstu þriggja ára.

Reglugerðin mun byggja á núgildandi skilyrðum sem MAST setur fyrir starfsemina sem verða hert með tilliti til sjónarmiða sem fram komu á fundum starfshópsins við hagaðila og aðra. Starfshópurinn telur brýnt að setja ítarlegi ákvæði um aðbúnað og aðstöðu, eftirlit með ástandi hrossa varðandi heilbrigði, hófhirðu og skapgerðarmat, vinnuaðferðir við blóðtökuna sjálfa og um innra og ytra eftirlit með henni.

„Með setningu slíkrar reglugerðar yrði hin óljósa réttarstaða þessarar starfsemi færð til betri vegar.“

ECG eða PMSG (e. Pregnant Mare Serum Gonadotropin) er hormón sem finnst í fylfullum merum og er notað í framleiðslu frjósemislyfja fyrir dýr. Frjósemislyfin eru fyrst og fremst notuð á svín í verksmiðjubúskap (e. factory farming) erlendis.
Fréttablaðið/Getty images

„Með setningu slíkrar reglugerðar yrði hin óljósa réttarstaða þessarar starfsemi færð til betri vegar,“ segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins. Með nýju reglugerðinni verður kveðið á um að blóðmerahald falli ekki undir reglugerð um dýr sem notuð eru í vísindaskyni.

Mikið hefur verið rætt um óljósa lagaumgjörð um blóðtöku en með þessum breytingum verða skýrt kveðið á um hvaða skilyrði starfsemin þurfi að uppfylla. MAST komst að þeirri niðurstöðu árið 2020 að blóðtaka úr hryssum til lyfjaframleiðslu væri ekki leyfisskyld starfsemi samkvæmt túlkun þeirra á lögum og reglugerðum. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri viðunandi að hafa svo óljósa lagaumgjörð þar sem um nokkuð umfangsmikla og umdeilda starfsemi er að ræða.

Vilja óháðan aðila til að kanna blóðmagn

Starfshópurinn vill að óháður aðili sannreyni mælingar á blóðbúskap hryssnanna. Mikið hefur verið fjallað um blóðmagn íslenska en hátt í fimm lítrar af blóði eru teknir vikulega úr fylfullum hryssum á meðan hormónið finnst í blóði þeirra. Gagnrýnendur á blóðmerahald telja að blóðmagn íslenska hestsins hafi verið ofmetið.

Starfshópurinn nefnir sérstaklega Tilraunastöðin á Keldum sem óháðan aðila til að kanna blóðmagnið. Vert er að nefna að rekja má upphaf blóðmerahalds til Tilraunastöðvarinnar á Keldum þar sem Eggert Gunnarsson, dýralæknir og einn upphafsmanna blóðmerahalds á Íslandi, stundaði rannsóknir. Blóðmerahald hófst á Íslandi fyrir 40 árum á vegum fyrirtækisins G. Ólafsson og Tilraunastöðin á Keldum annaðist athuganir vegna framleiðslu PMSG á vegum þeirra.

Skjáskot/timarit.is

Bannað að hvetja til óhóflegrar blóðtöku

Sömuleiðis mælir starfshópurinn með að skilyrði verði sett um aldursbil hryssna í blóðtöku, hámarksfjölda í stóðum og hámarksfjölda sem dýralæknir má hafa umsjón með í blóðtöku. Aðstoðarmaður undir stjórn dýralæknis verði til staðar við hvern blóðtökubás til að geta brugðist skjótt við ef vandamál koma upp.

Hópurinn leggur einnig til að ekki verði leyfilegt að notast við framleiðslukerfi sem hvetur til og byggir á magnframleiðslu. Það gæti stefnt velferð dýranna í hættu.

Skýrslu starfshópsins má lesa í heild sinni hér.

Blóðmerar: Fylfullar (óléttar) hryssur sem eru ræktaðar til þess eins að taka úr þeim fimm lítra af blóði vikulega í 5 til 10 vikur á hverju ári. Þær eru allar útigangshryssur og villtar. Folöld þeirra eru send í slátrun.
Mynd: AWP / Texti: Fréttablaðið