Blóðmerabændur leggjast gegn frumvarpi Ingu Sæland, formanns og þingmanns Flokks fólksins, um bann gegn blóðmerahaldi.

Þrír bændur hafa lagt fram umsögn við frumvarpinu á vef Alþingis sem má nálgast hér.

Lífið fari vel með blóðmerar

Sigríður Jónsdóttir, blóðmerabóndi, búfræðikandídat og umhverfisfræðingur, gagnrýnir harðlega orðalagið í frumvarpinu og segir engin raunsönn dæmi eða gögn liggja fyrir um að óhjákvæmilegt sé að beita hryssur ofbeldi í blóðtöku. Afkomumöguleikar í sveitum séu afar takmarkaðir nú þegar og bann við blóðframleiðslu yrði gríðarlegur skellur.

„Endurteknar fullyrðingar í greinargerð með frumvarpi þessu um ofbeldi gegn hryssum í tengslum við blóðtöku, eru að mínu mati forkastanleg árás á heiður okkar og mannorð,“ skrifar Sigríður um í sinni umsögn.

Hún vísar í rannsóknir sem gerðar voru í upphafi blóðmerahalds á Íslandi og reynslu bænda og eftirlit Matvælastofnunar og Ísteka og segir ótvírætt að blóðmerar geti haldið góðri heilsu. Ennfremur bendir hún á að þau sem stundi búskap viti að lítið sé upp úr því að hafa að níðast á bústofni sínum.

„Það er ótvírætt merki þess að lífið fer vel með þær, enda hafa þær meiri möguleika en flest önnur hross á Íslandi til að iðka sitt náttúrulega atferli, auk þess sem þörfum þeirra er sinnt, bóndanum og þeim sjálfum til hagsbóta, árið um kring.“

Sigríður segir að hugsanlegt óorð af starfseminni væri ekki af völdum blóðmerabænda heldur vegna „fordóma og vanþekkingar rægja okkur með ósannindum.“

Gæti ekki haft stórt hrossastóð án blóðpeninganna

Hanna Valdís Guðjónsdóttir, blóðmerabóndi og hestafræðingur, segir sömuleiðis að frumvarpið sé fullt af rangfærslum. Segir hún líf blóðmera einna besta lífið fyrir hross.

„Ef merunum er sýnd virðing, þeim er kennt að fara á bás og þær læra á blóðtökuferlið þá lifa þessar merar eins náttúrulegu lífi og sést meðal hrossa í heiminum í dag,“ skrifar Hanna Valdís í umsögn sinni.

Hafnar hún því að rækta hross í gróðaskyni. Hún geri það til notkunar sem reiðhross, áframhaldandi ræktun, til varðveislu á skemmtilegum hestalitum, til að nýta beitarland, til kjötframleiðslu og sér til skemmtunar.

„Ef ekki væri fyrir peninginn fyrir blóðið gæti ég engan veginn réttlætt það að hafa mitt hrossastóð svona stórt og fjölbreytt (og stuðla þar með að líffræðilegri fjölbreytni sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig um að halda hátt undir höfði). Þegar horft er á kostnað við fóðuröflun og vinnu við umhald og umhirðu meranna, verður tímakaup bænda undir lægstu viðmiðum launafólks.“

Ekkert athugunarvert við blóðmerahald

Bjarni Sævarsson, hrossabóndi og búvísindamaður, segir blóðmerahald ekki frábrugðið öðrum búskap. Hann segir, líkt og Arnþór Guðlaugsson, framkvæmdastjóri Ísteka sagði í grein sinni á Vísi, að blóðmerahald væri jákvætt fyrir loftslagmál.

„Notkun á hormóninu (eCG) sem unnið er úr blóði frá íslenskum merum sparar svínarækt heimsins um það bil milljón gyltur árlega sem annars þyrfti að ala og fóðra, með tilheyrandi sótspori, til að framleiða sama magn grísakjöts og nú er þegar gert,“ skrifar Bjarni í umsögn sinni.

Bjarni segir frumvarpið sýna fram á þekkingarleysi framleggjenda á íslenskum búskap og menningu til sveita að fornu og nýju. Segir hann dýraverndarsamtökin Animal Welfare Foundation, sem hann kallar öfgasamtök, einu aðilana sem hafa svert ímynd íslenska hestsins á erlendri grundu.

„Það er ekkert athugavert við stóðhrossahald til blóðtöku.“