Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Fimmtudagur 25. nóvember 2021
10.00 GMT

Þorri almennings heyrði í fyrsta sinn í síðustu viku að blóðmerahald væri stundað á Íslandi og í kjölfarið vöknuðu spurningar um tilgang þess að draga blóð úr ótömdum fylfullum hryssum á yfir 100 sveitabæjum á Íslandi. Ljóst er að mikil leyndarhyggja hefur umlukið þennan iðnað síðastliðna áratugi.

Umræðan um velferð hryssa hefur aldrei verið háværari, þrátt fyrir að um sé að ræða 40 ára gamlan iðnað. Ástæðan er 20 mínútna heimildarmynd dýraverndarsamtakanna AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) sem sýnir myndbrot frá blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Viðbrögðin hafa verið hörð enda sýnir myndbandið hvernig dýralæknar fylgdust aðgerðalausir með hundum og mönnum níðast á merunum. Verklagið sem sést í myndbandinu virðist ekki tryggja velferð hryssanna og er nú Matvælastofnun með málið til rannsóknar.

Blóðmerar: Fylfullar (óléttar) hryssur sem eru ræktaðar til þess eins að taka úr þeim fimm lítra af blóði vikulega í 5 til 10 vikur á hverju ári. Þær eru allar útigangshryssur og villtar. Folöld þeirra eru send í slátrun.
Mynd: AWP / Texti: Fréttablaðið

Draumalyf verksmiðjubúskapar

PMSG (e. Pregnant Mare Serum Gonadotropin) er hormón sem finnst í fylfullum merum og er notað í framleiðslu frjósemislyfja fyrir dýr. Lyfin hafa verið notuð í tilraunaskyni til að stýra fengitíma sauðfjár en einnig til að aðstoða við að viðhalda stofni blettatígra. Þetta er þó aðeins dropi í hafið þar sem langstærsti hluti kaupenda PMSG er verksmiðjubændur, þá svína- og kúabændur.

Frjósemislyfin eru fyrst og fremst notuð á svín í verksmiðjubúskap (e. factory farming) erlendis til þess að láta gyltur gjóta grísum með eins stuttu millibili og hægt er í óeðlilegum aðstæðum þar sem dýrin geta lítið hreyft sig vegna plássleysis.

PMSG nýtist í gyltur sem geta ekki átt mikið af gríslingum með eðlilegum hætti vegna óviðunandi aðstæðna.
Fréttablaðið/Getty images

Einnig nota stór erlend mjólkurbú lyfið til að stytta tímann milli fæðingar og sæðingar svo kýrnar geti borið sem flestum kálfum á sem stystum tíma til að framleiða sem mesta mjólk.

Annað stærsta mjólkurbú í heiminum: Mjólkurbú í Dongying í eigu China Modern Dairy Holding Ltd. Stór mjólkurbú reiða sig á frjósemislyf til að auka afkastagetu sína. Bændur sem nota PMSG fá ekki lífræna vottun.
Fréttablaðið/Getty images

Ísland stærsti framleiðandi PMSG í Evrópu

Aðeins fimm lönd í heiminum stunda blóðmerahald; Kína, Argentína, Úrúgvæ, Þýskaland og Ísland. Þetta segir Sabrina Gurtner, fulltrúi alþjóðlegu dýraverndarsamtakanna Animal Welfare Foundation, í samtali við Fréttablaðið en hún rannsakaði blóðmerahald á Íslandi árin 2019 til 2021.

Ísland er þriðji stærsti framleiðandi PMSG í öllum heiminum og með talsvert stærra umfang en Þýskaland og því langstærsti löglegi framleiðandi PMSG í Evrópu.

Kortayfirlit yfir 40 sveitabæi sem AWF staðfestir að stundi blóðmerahald. Ekki er hægt að finna opinbera skrá yfir blóðmerahald á Íslandi en í ár voru 5.383 hryssur nýttar í blóðtöku á 119 bæjum.
Google maps

Einn óumhverfisvænasti iðnaður í heimi

Danska svínabúið Danish Crown er stærsta svínabú í Evrópu og er kjöt frá því selt á Íslandi. The Guardian greindi frá því árið 2019 að dönsku gylturnar gytu mörgum grísum samanborið við annars staðar, þökk sé „tækninýjungum“; að meðaltali voru 33,3 grísir á hverja gyltu á ári. Í Bandaríkjunum eru það 26,4 grísir á hverja gyltu.

„Við þurfum að snúa þessari ræktun við. Gylturnar gjóta að vísu fleiri grísum en þeir eru minni og veikari en áður,“ sagði Britta Riis, framkvæmdastjóri Dýraverndar í Danmörku, í samtali við The Guardian.

Danska svínabúið Danish Crown er stærsta svínabú og sláturhús í Evrópu. Slátrunargetan hjá Danish Crown er mjög mikil.

Í þröngu rými þar sem lýsing, pláss og hitastig er óviðunandi eiga gyltur erfitt með að gjóta eins og þær gera í lífrænum búskap. Til að spara tíma og pláss er þeim gefið hormónalyfið PMSG sem fengið er úr blóði fylfullra hryssa.

Þetta er blóðmerahald og mætti segja að Ísland stuðli beint að uppbyggingu verksmiðjubúskapar víða um heim sem einn stærsti framleiðandi PMSG. Íslenska ríkisstjórnin hefur talað beint gegn verksmiðjubúskap enda er það einn óumhverfisvænasti iðnaður sem fyrirfinnst í heiminum.

Úr auglýsingabæklingi CEVA um PMSG frjósemislyf handa svínum.

Saga blóðmerahalds á Íslandi

Blóðmerahald hófst á Íslandi fyrir 40 árum á vegum fyrirtækisins G. Ólafsson. Lítið hefur verið skrifað um sögu greinarinnar en Dagrún Kristinsdóttir fer yfir söguna í BS-ritgerð sinni frá 2019.

„Framleiðslan byrjaði í smáum stíl. Sumarið 1979 var blóð tekið úr um 80 fylfullum hryssum í Skagafirði. Næsta sumar varð töluverð aukning þegar var tekið blóð úr um 680 fylfullum hryssum víðar á landinu.“

Einar Birnir seldi blóð til Løvens Kemiske Fabrik í Danmörku.
Byggða-Tíminn 1981

G. Ólafsson lýsti yfir gjaldþroti árið 1990 en í grein Morgunblaðsins um málið segir: „G. ÓLAFSSON hf. í Reykjavík, fyrirtæki sem starfrækti lyfjaheildverslun og hafði nýlega hafið líftækniframleiðslu á hormónalyfi úr merarblóði, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta.“

Sama ár birtist grein í Morgunblaðinu um að nýstofnað dótturfyrirtæki Þróunarfélagsins hf., Ísteka hf., hefði hafið sölu á svonefndum „fylprófum“ fyrir hrossaeigendur og dýralækna sem „gera þeim sjálfum kleift að kanna með óyggjandi hætti hvort hryssur séu fylfullar“.

Þar sagði Hörður Kristjánsson, stjórnandi rannsókna og þróunar hjá Ísteka það ár, að fyrirtækið hygðist framleiða og selja á erlendum mörkuðum frjósemislyf framleitt úr hryssublóði.

Árið 1994 tók Lyfjaverslun Íslands hf. við rekstri Ísteka og hófst þá blóðsöfnun úr fylfullum blóðgjafarhryssum í Landeyjum og nágrenni og var þá Hörður Kristjánsson skráður framkvæmdastjóri.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem blóðmerahald hefur komið til umræðu hjá hinu opinbera.
Bændablaðið árið 2000
Ísteka auglýsir eftir bændum
Auglýsing í Bændablaðinu 2019

Ísteka stefnir á að tvöfalda framleiðslu

Ísteka ehf., sem er líftæknifyrirtæki, er eina fyrirtækið sem hefur leyfi Matvælastofnunar til að taka blóð úr fylfullum hryssum til vinnslu afurða. Ísteka kaupir blóð frá bændum og einangrar úr því hormónið PMSG og selur til útlanda. Samkvæmt Skipulagsstofnun er magn lyfjaefnis 10 kíló á hverju ári en getur vaxið á næstu árum og orðið 20 kíló.

Velta Ísteka árið 2020 var 1,7 milljarðar og hundrað prósent af veltu fyrirtækisins er í útflutningi. Í skýrslu AWF kemur fram að íslenskir bændur geti fengið um 65 þúsund krónur fyrir blóðið úr hverri hryssu á hverju sumri.

Í upplýsingablaði Ísteka á vefsíðu fyrirtækisins stendur að Ísteka hafi verið stofnað árið 2000 en ekki 1990 líkt og kom fram í fréttum á þeim tíma. Arnþór Guðlaugsson er framkvæmdastjóri.
Fréttablaðið/Samsett mynd
100 prósent af veltu fyrirtækisins er í útflutningi. Lyf sem framleitt er úr hormóni úr blóði íslenskra hryssa er selt beint til erlendra svínabænda sem vilja auka afkastagetu sína.
Af vefsíðu Ísteka

Íslenski iðnaðurinn er evópski iðnaðurinn

Blóðmerahald er 40 ára gamall iðnaður í nær öllum þeim löndum þar sem hann er stundaður.

Iðnaðurinn er stærstur í Argentínu og Úrúgvæ og er þar stundaður með grimmilegum hætti. Þar er fóstureyðing framkvæmd svo hægt sé að framkvæma blóðtöku á tveimur tímabilum á ári.

Fóstur á gólfinu við blóðtökubás í Suður-Ameríku.
Mynd: AWF

Eftir að dýraverndarsamtökin AWF birtu heimildarmynd og skýrslu um blóðmerahald í Suður-Ameríku hættu öll evrópsk og norður-amerísk lyfjafyrirtæki og svínabændur að kaupa PMSG frá Suður-Ameríku og byrjuðu að kaupa frá evrópskum framleiðendum, það er, frá Íslandi.

„Öll verslun færðist frá Suður-Ameríku til Evrópu eftir 2015. En evrópski iðnaðurinn er í raun bara Ísland,“ segir Sabrina Gurtner hjá AWF við Fréttablaðið.

„Íslenska framleiðslan er mjög stór miðað við í Þýskalandi en hefur þó verið í gangi jafn lengi, í 40 ár.“

Blóðmerahald haldi mörgum íslenskum bændum á lífi

Ísland er stærsti framleiðandi PMSG í Evrópu og eru miklir fjárhagslegir hvatar til staðar fyrir bændur til að hámarka afköst. Guðmar Aubertsson dýralæknir, sem hefur sjálfur séð um blóðtöku hér á landi, sagði í umsögn sinni við frumvarp um breytingu á lögum um velferð dýra í mars á þessu ári að blóðmerahald hefði haldið mörgum bændum á lífi.

„Blóðmerarhald er orðið mjög algengt í sveitum landsins og hefur verið kærkomin viðbót við annan búskap sem hefur staðið höllum fæti undanfarin ár eins og til dæmis sauðfjárrækt. Hefur blóðmerarhaldið því haldið mörgum bændum á lífi undanfarið og stuðlað að því að sveitir landsins haldist í byggð.“

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki upplýsingar um veltu einstaklinga og fyrirtækja sem stunda blóðmerahald á Íslandi en ætla má að verðmæti hryssublóðs sé umtalsvert. Hrossabændur geta þrefaldað tekjur sínar með því að selja blóð fylfullra mera til framleiðslu á frjósemislyfjum, að sögn framkvæmdastjóra Ísteka, Arnþórs Guðlaugssonar, í grein Morgunblaðsins frá árinu 2015.

Sabrina Gurtner hefur skoðað blóðtökubása í Suður-Ameríku og Evrópu og segir blóðtökubásana á Íslandi með þeim verstu. Eins og þeir séu gerðir úr afgöngum. Blóðtaka fer fram á mörgum stöðum á Íslandi utandyra en í Argentínu fer blóðtaka fram innandyra.
Mynd: AWF
Annar blóðtökubás á Íslandi.
Mynd: AWF
Blóðtaka í blóðtökubás á íslenskum sveitabæ.
Mynd: AWF

Önnur lyf í boði

Á fjórða tuga frjósemislyfja eru til á markaðnum sem skila sama árangri og PMSG í að auka frjósemi í húsdýrum. Þau lyf eru búin til úr gervihormónum.

„PMSG eykur verksmiðjubúskap en það er algjörlega ónauðsynlegt efni þegar til eru gerviefni sem gera það sama. Á sama tíma er hægt að auka frjósemi í svínum í réttu umhverfi með góðri lýsingu, réttu fóðri, góðu plássi og með því að hafa gylturnar á sama svæði á gangmálum (e. in heat),“ útskýrir Sabrina.

PMSG í duftformi. PMSG er lífvirkt efni sem hægt er að nota til að örva þroska eggbúa í öðrum dýrategundum en hrossum, og er einkum notað í svínarækt.
Mynd: Jiangxi Institute of Biological Products Inc.

Stærstu svínaræktendur og kjötframleiðendur í heimi telja sig þó hvorki hafa tíma né pláss til að fylgja þessu ferli ætli þeir að auka peningaveltu sína. Þess vegna er PMSG notað svo hægt sé að hafa eins mikið af svínum á eins litlu svæði og hægt er án þess að draga úr frjósemi og missa þannig afkastagetuna.

„Kjötframleiðendur sem halda svínum í óviðunandi verksmiðjum nota PMSG til að bæta upp fyrir minnkandi frjósemi gyltna,“ segir Sabrina. „Þetta er bara siðlaust,“ bætir hún við.

Græni evrópski sáttmálinn tæklar blóðmerahald

Framkvæmdastjórn ESB hefur sett fram það markmið að Evrópa verði fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan fyrir árið 2050. Til þess að ná því markmiði hefur verið kynntur metnaðarfullur aðgerðapakki, Græni evrópski sáttmálinn.

Frá býli til matar: Evrópuþing vill stöðva blóðmerahald
Skjáskot úr skýrslu frá 20. október 2021 um áhersluatriði 6 í græna sáttmála Evrópuþings

Sáttmálanum er skipt í sjö áhersluatriði en númer sex á listanum er Frá býli til matar (e. From farm to fork) þar sem lögð er meiri áhersla á vegan mataræði. Anja Hazekamp, hollenskur þingmaður á Evrópuþinginu, hélt ræðu um mikilvægi þessa áhersluatriðis.

Í skýrslu Evrópuþings um sérstakar aðgerðir í tengslum við Frá býli til matar er mælt með að stöðva innflutning og framleiðslu á PMSG. Sabrina segir ljóst að blóðmerahald stangist á við áhersluatriði ESB í Græna sáttmálanum.

Þingmenn vilja banna blóðtöku

Inga Sæland, formaður og þingmaður Flokks fólksins, vill banna blóðtöku úr fylfullum hryssum.

Í febrúar lagði hún fram frumvarp til laga á Alþingi ásamt flokksbróður sínum Guðmundi Inga Kristinssyni og tveimur þingmönnum Pírata, Olgu Margréti Cilia og Söru Elísu Þórðardóttur, um að banna blóðtöku úr fylfullum hryssum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því vöru til sölu.

Inga segir að þetta verði eitt af forgangsmálum hennar á þessu þingi en hún segir mörgu ábótavant við lögin.

„Ekki var fjallað sérstaklega um þessa starfsemi í frumvarpi um velferð dýra þótt einkennileg sé og hvorki er sérstaklega fjallað um hana í reglugerð um velferð hrossa né reglugerð um velferð dýra sem eru notuð í vísindaskyni,“ sagði Inga þegar hún kynnti frumvarp sitt á Alþingi.

Inga Sæland.

Ole Anton Bieltvedt, kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir, sendi bréf á Matvælastofnun í febrúar 2020 og spurðist fyrir um ofbeldi gegn blóðmerum.

Þar sem hryssurnar væru í útigangi og því villtar og styggar, þyrfti sennilega að koma þeim inn í blóðtökubásana með afli og ofbeldi.

Í svari MAST kom fram: „Nei. Því er fjarri að „augljóslega þurfi að beita hryssurnar ofbeldi“.“

Ole Anton Bieltvedt, kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir, sendi bréf á Matvælastofnun í febrúar 2020.
Athugasemdir