Tekið var blóð úr rúmlega fimm þúsund fylfullum hryssum til lyfjaframleiðslu af meraeigendum og líftæknifyrirtækjum á síðasta ári.

Öllum folöldum blóðmera er slátrað til kjötframleiðslu, sett á til endurnýjunar eða nýtt til reiðhestaræktunar í einhverjum tilfellum. Þrír bæir á Íslandi hafa gert alvarlega athugasemdir um blóðmerahald og var því blóðmerahaldi hætt á viðkomandi bæjum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur ekki upplýsingar um veltu einstaklinga og fyrirtækja sem stunda blóðmerahald á Íslandi. Þetta kemur fram í svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Ágústar Ólafar Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem birtist á vef Alþingis í gær.

Ágúst Ólafur bað hins vegar um sundurliðað svar um fjölda blóðmera sem notaðar hafa verið í þessum tilgangi síðastliðinn 10 ár.

Hrossabændur geti þrefaldað tekjur sínar

Starfsemin sem um ræðir snýst um að nýta efnið PMSG(e.Pregnant Mare Serum Gonadotropin), sem finnst í blóði fylfullra hryssna, sem hægt er að nota til að örva þroska eggbúa í öðrum dýrategundum en hrossum, einkum í svínarækt.

Ætla má að verðmæti hryssublóðs sé umtalsvert en það fæst ekki gefið upp vegna viðskiptahagsmuna. Hrossabændur geta þrefaldað tekjur sínar með því að selja blóð fylfullra mera til framleiðslu á frjósemislyfjum samkvæmt Arnþóri Guðlaugssyni í grein Morgunblaðsins frá árinu 2015.

Aðspurður um tilgang blóðmerahalds svarar Kristján Þór:

„Fylfullar hryssur framleiða sérstakt hormón í fylgjunni á fyrri hluta meðgöngu (40.–120. degi). Hormónið hefur það hlutverk að viðhalda meðgöngu með því að örva starfsemi eggjastokka og fjölga gulbúum. Hægt er að vinna hormónið úr blóði hryssa á þessu tiltekna tímabili meðgöngunnar og vinna úr því frjósemislyf. Það er einna helst notað til að samstilla gangmál dýra, mest í svínarækt. Frjósemislyfið er notað út um allan heim, en í hverfandi magni á Íslandi. Hryssublóði hefur verið safnað úr fylfullum hryssum í kjötframleiðslu hér á landi í um 40 ár.“

Ágúst Ólafur spurðist fyrir um hvernig blóðmerahald uppfylli lagaákvæði um dýravernd og við hvaða réttarheimild væri stuðst.
„Um blóðmerahald gilda lög um velferð dýra, nr. 55/2013, og reglugerð um velferð hrossa, nr. 910/2014. Matvælastofnun annast eftirlit með framkvæmd laganna og reglugerðarinnar og hefur eftirlit með því að ákvæðum þeirra sé fylgt. Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun hafa síðustu þrjú ár verið gerðar alvarlegar athugasemdir á þremur bæjum sem tengjast blóðmerahaldi og var blóðmerahaldi þá hætt á viðkomandi bæjum.“

Hestahald þar sem framkvæmd er blóðtaka úr hrossum til framleiðslu afurða var stunduð á vegum 95 aðila árið 2019 samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun.