Sú stað­reynd að Rússar hyggist kveða til þjóðar­at­kvæða­greiðslu um stöðu her­numinna svæða í Úkraínu er merki um „fyrir­litningu og lítils­virðingu“ Vla­dimírs Pútíns Rúss­lands­for­seta á Sam­einuðu þjóðunum segir Antony Blin­ken, utan­ríkis­ráð­herra Banda­ríkjanna. Orðin lét hann falla í gær, áður en Pútín greindi frá her­kvaðningu vegna inn­rásarinnar.

Nú stendur yfir alls­herjar­þing Sam­einuðu þjóðanna í New York þar sem um 150 þjóðar­leið­togar koma saman. Síðar í dag koma þar Joe Biden Banda­ríkja­for­seti og Volodómír Selenskíj for­seti Úkraínu í pontu.

Að sögn AP mun Biden segja í ræðu sinni að inn­rásin sé dæmi um „aug­ljósa á­rásar­hneigð“ Rússa. „Hann mun svara ó­rétt­mætu stríði Rússa í Úkraínu og kalla eftir því að heims­byggðin standi þétt saman gegn því sem við höfum horft upp á undan­farna mánuði,“ sagði Jake Sullivan, þjóðar­öryggis­ráð­gjafi Bidens við fjöl­miðla í að­draganda ræðunnar.

„Hann mun undir­strika mikil­vægi þess að styrkja Sam­einuðu þjóðirnar og styrkja enn við sátt­mála SÞ nú þegar fasta­með­limur í öryggis­ráðinu hefur ráðist gegn grunn­stoðum hans um landa­mæra­helgi og full­veldi.“

Sam­þykkt var á alls­herjar­þinginu í síðustu viku að Selenskíj flytti þar á­varp. Hann verður hins vegar ekki á staðnum og verður upp­taka af ræðu hans sýnd.