Eyþór Kamban Þrastarson og eiginkona hans lentu í erfiðu atviki þegar þau bjuggu sig undir að stíga um borð í flugvél SAS á leið heim til Íslands frá Grikklandi fyrr í dag. Hjónin, sem eru bæði blind, voru að ferðast með eins árs gamalli dóttur sinni þegar þeim var meinaður aðgangur um borð í vélina.

„Við pöntuðum miða til að koma og vera á Íslandi í mánuði,“ segir Eyþór. „Við hringdum í flugfélagið og létum vita að við þyrftum aðstoð á flugvellinum því við erum blind en fann hvergi neitt frekar um sérstök úrræði fyrir blinda foreldra.“

Það gekk klakklaust fyrir hjónin að komast í gegnum öryggisleitina en þegar komið var upp að hliði tók skellurinn við þeim.

„Þar fáum við að heyra að flugstjórinn hleypi okkur ekki um borð,“ segir Eyþór. „Okkur var meinaður aðgangur að flugvélinni eins og við værum bara í annarlegu ástandi.“

Meintur öryggisbrestur

Ástæðan sem þeim hjónum var gefin upp var að það væri öryggisbrestur að blindir foreldrar væru ferðast með lítið barn.

„Við urðum auðvitað mjög reið og við tók mikið drama,“ segir Eyþór. „Við vildum ekki fara neitt áður en við fengjum almennilega útskýringu á því hvernig þetta væri leyfilegt.“

Eyþór og kona hans fengu ekkert á pappír sem sagði til um að þetta væru reglur heldur sé þetta réttur sem sé áskilinn flugstjóranum.

„Ég skil að slíkur réttur verður að vera til staðar, en flugstjórinn hlýtur þá líka að vera ábyrgur gjörða sinna ef hann tekur ranga ákvörðun,“ segir Eyþór. „Til að setja þetta í samhengi þá máttu ferðast í vél með SAS ef þú ert fimm ára gamalt barn, að því gefnu að allt sé rétt skráð.“

Aldrei lent í öðru eins

Útskýringin sem Eyþór og kona eiginkona hans fengu var að áhöfnin hafi ekki vitað af aðstæðum þeirra.

„Það er bara ekki mitt vandamál. Ég var búinn að hringja og láta vita af því,“ segir hann. „Einhvers staðar sá ég að það hafi verið gerð beiðni eftir blindrahundi, sem á alls ekki við aðstæðurnar, en hún náði ekki til okkar. Ég held að þegar flugstjórinn sá okkur koma, hundlaus en með barn, þá hafi hann styggst og neitað okkur um að koma um borð.“

Fjölskyldan hefur áður ferðast saman en aldrei lent í öðru eins.

„Við vorum einu sinni stöðvuð í pöntunarferlinu og þá pöntuðum við bara miða með öðru flugfélagi, sem var reyndar bara innanlands,“ útskýrir Eyþór. „Það hafa auðvitað ekki verið góðar aðstæður til að ferðast fyrr en fyrir skömmu. Við höfum alveg farið með dóttur okkar í rútur og ferjur sem eru ferðamátarnir hér og það hefur ekki verið vandamál.“

Næsta lausa flug eftir viku

Fjölskyldan sóttist í kjölfarið eftir aðstoð frá Blindrafélaginu sem settu sig í samband við SAS. Þar fengust svör um að hægt væri að koma fjölskyldunni í næsta flug.

„Nú hafa SAS boðist til að endurgreiða okkur miðann að fullu eða bóka okkur í næsta flug. Sem er eftir viku.“

Eyþór segist aldrei hafa búist við því að lenda í öðru eins veseni.

„Alltaf þegar maður ferðast lendir maður í einhverju smá veseni, það er ekkert nýtt. En það að vera meinaður aðgangur að vélinni – því hef ég aldrei lent í.“