Ey­þór Kamban Þrastar­son, sem í tví­gang hefur verið meinaður að­gangur ásamt fjölskyldu sinni að flugi flug­fé­lagsins SAS frá Grikk­landi, hefur enn ekki fengið úr­lausn sinna mála af hálfu flug­fé­lagsins. Hann segir flug­fé­lagið tví­saga um máls­at­vik og hann sé nú að í­huga máls­sókn.

„Það nýjasta er að við erum búin að fá stað­festingu frá SAS í Skandinavíu að við megum fljúga, en þetta stoppar ein­hvern veginn á flug­vellinum,“ segir Ey­þór, sem ber þjónustu­aðilum SAS ekki góða söguna.

„Það er kona hér á flug­vellinum sem sér um þjónustu við far­þega SAS og hún full­yrðir að án að­stoðar­manns fljúgum við bara ekki, en við þurfum sum sé bæði að skaffa og borga fyrir þennan aðila,“ segir Ey­þór, sem kveðst afar svekktur yfir fram­komunni.

„Mér er alveg sama ef flug­fé­lagið myndi setja ein­hvern af sínu starfs­fólki í sæti til að hjálpa okkur með barnið í neyðar­til­felli, það er bara gott mál mín vegna, en að við þurfum að greiða fyrir þetta finnst mér ekki í lagi,“ segir Ey­þór, og heldur á­fram:
„Við erum reyndar búin að finna ís­lenska konu sem er bú­sett hér í Grikk­landi og á flug heim á föstu­daginn sem gæti að­stoðað okkur. Og við erum að hugsa um að beygja okkur undir það í þessu til­felli, því við viljum komast heim,“ segir Ey­þór.

Að sögn Ey­þórs myndi sú staða þýða eitt. Að hann og kona hans fari í máls­sókn við flug­fé­lagið SAS.

„Það fer þá bara sinn far­veg og þá er það bara svo­lítið langi leikurinn. Við sættum okkur ekki við þetta. Þetta er bara mismunun.“