Eyþór Kamban Þrastarson, sem í tvígang hefur verið meinaður aðgangur ásamt fjölskyldu sinni að flugi flugfélagsins SAS frá Grikklandi, hefur enn ekki fengið úrlausn sinna mála af hálfu flugfélagsins. Hann segir flugfélagið tvísaga um málsatvik og hann sé nú að íhuga málssókn.
„Það nýjasta er að við erum búin að fá staðfestingu frá SAS í Skandinavíu að við megum fljúga, en þetta stoppar einhvern veginn á flugvellinum,“ segir Eyþór, sem ber þjónustuaðilum SAS ekki góða söguna.
„Það er kona hér á flugvellinum sem sér um þjónustu við farþega SAS og hún fullyrðir að án aðstoðarmanns fljúgum við bara ekki, en við þurfum sum sé bæði að skaffa og borga fyrir þennan aðila,“ segir Eyþór, sem kveðst afar svekktur yfir framkomunni.
„Mér er alveg sama ef flugfélagið myndi setja einhvern af sínu starfsfólki í sæti til að hjálpa okkur með barnið í neyðartilfelli, það er bara gott mál mín vegna, en að við þurfum að greiða fyrir þetta finnst mér ekki í lagi,“ segir Eyþór, og heldur áfram:
„Við erum reyndar búin að finna íslenska konu sem er búsett hér í Grikklandi og á flug heim á föstudaginn sem gæti aðstoðað okkur. Og við erum að hugsa um að beygja okkur undir það í þessu tilfelli, því við viljum komast heim,“ segir Eyþór.
Að sögn Eyþórs myndi sú staða þýða eitt. Að hann og kona hans fari í málssókn við flugfélagið SAS.
„Það fer þá bara sinn farveg og þá er það bara svolítið langi leikurinn. Við sættum okkur ekki við þetta. Þetta er bara mismunun.“