Finnur Ingimarsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs, segir sláandi mun á ástandi bleikjustofna í Þingvallavatni miðað við það sem var um miðjan níunda áratug síðustu aldar.

Finnur gekk á fund Þingvallanefndar fyrr í vetur og kynnti þar niðurstöður vöktunar á Þingvallavatni. Þar kom fram að hrun væri í viðkomu murtu og vísbendingar um að bleikjan sé að gefa eftir.

„Á flestum stöðum er bleikjan að gefa töluvert eftir – miðað við veiði sem fór fram 1984. Þá var veitt á þremur stöðum í vatninu; við Miðfell, við Lambhaga sem er vestan til og svo norður á Bjarnarmöl sem er undan þjóðgarðinum,“ segir Finnur um stöðuna við Fréttablaðið.

„Þegar bornar eru saman veiðitölur og hlutfall er svolítið sláandi munur á milli þessara tíma þar sem bleikja hefur á flestum sviðum gefið eftir á meðan urriði hefur vaxið töluvert,“ segir Finnur.

Að sögn Finns er bleikjan aðlöguð kulda. Hlýnun Þingvallavatns vegna loftslagsbreytinga sé að öllum líkindum þáttur í hnignun bleikjunnar í Þingvallavatni. „Og það er náttúrlega erfitt að bregðast við því, kerfið er svo tregt,“ segir hann spurður hvort eitthvað sé til ráða svo snúa megi þróuninni við.

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur frá árinu 2007 vaktað svifvistina í Þingvallavatni. Murtan í vatninu, sem lifir á svifi, hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum, sérstaklega á síðustu tveimur eða þremur árum að sögn Finns.

Fyrir Þingvallanefnd kynnti Finnur áform um aukna vöktun á vatninu og lýsti nefndin áhuga á að koma að því verkefni. „Við viljum efla vöktunina til að fá betri sýn á hvað er að gerast,“ segir hann.

Þessi þróun er ekki bundin við Þingvallavatn heldur virðist dæmigerð fyrir Ísland og aðra staði á norðurslóðum. Finnur bendir á gögn frá Íslandi og Noregi sem fram koma í nýrri skýrslu sem byggir á rannsókn sem nær yfir tuttugu ára tímabil og tekur til bleikju í Noregi og á Ísland. Einn höfunda hennar er Guðni Guðbergsson hjá Hafrannsóknastofnun. „Á öllum stöðum er bleikjunni að hraka,“ segir Finnur.

Murtan er að hverfa og bleikjan er að gefa eftir í Þingvallavatni. Loftslagsbreytingar eru líklegur áhrifavaldur.
Mynd/aðsend