Al­þingi sam­þykkti í júní að lækka virðis­auka­skatt á getnaðar­varnir og tíða­vörur úr efra skatt­þrepi í það neðra og taka lögin gildi í dag.

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­maður Pírata, var fyrsti flutnings­maður til­lögunnar en frumvarpið var lagt fram í þriðja sinn á síðasta þingi. Fékkst það ekki afgreitt í fyrri tvö skiptin sem það var lagt fram. Helsti rökstuðningur með samþykkt frumvarpsins var að vörurnar væru nauðsynjavörur en ekki munaðarvörur og að jafna þyrfti aðgengi að getnaðarvörum.

Lækkunin nær yfir all­ar einnota og marg­nota tíðavör­ur þar með tal­in dömu­bindi, tíðatappa og álfa­bik­ara, auk allra teg­unda getnaðar­varna. Hvatti Þórhildur Sunna við atkvæðagreiðslu frumvarpsins neytendur til þess að vera vakandi eftir 1. september og fylgjast með hvort skattalækkunin skilaði sér út í verðlagið.

Mikið hefur verið rætt undanfarið um mismunandi verðlag á vörum ætluðum konum annars vegar og körlum hins vegar og hafa fjölmiðlar birt verðathuganir sem oft á tíðum leiða í ljós skrautlega markaðssetningu.