Innlent

Blaut­þurrkur og fita slæm blanda í klósettið

​Ný hreinsistöð skólps var tekin í notkun á Akranesi í gær og bættist þar með sveitarfélagið í hóp þeirra sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp. Þrátt fyrir að skólpið sé hreinsað benda Veitur þó á í tilkynningu sinni að klósett eru ekki ruslafötur.

Akranes bættist í hóp þeirra sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp. Veitur

Ný hreinsistöð skólps var tekin í notkun á Akranesi í gær og bættist þar með sveitarfélagið í hóp þeirra sem uppfylla kröfur um skólphreinsun samkvæmt reglugerð um fráveitur og skólp. Í tilkynningu frá Veitum, sem sjá um fráveitukerfið á Akranesi, segir að um mikilvægt skref í umhverfismálum sé að ræða. 

Áður rann skólpið óhreinsað út í sjó, en nú er því veitt frá átta meginrásum og beint í hreinsistöðina sem hreinsar öll gróf efni frá skólpinu, þar með talið sand, fitu og smáa hluti eins og eyrnapinna. Að því loknu er skólpinu síðan dælt um hálfan annan kílómetra út í sjó.

Í tilkynningu Veitna segir: „Uppbygging kerfisins fól í sér, auk hreinsistöðvarinnar, uppsetningu á sex nýjum dælubrunnum sem dæla skólpinu frá gömlu útrásunum í átt að hreinsistöðinni, nokkrum kílómetrum af nýjum lögnum á landi auk 1,5 km sjólögn frá hreinsistöðinni.“

Þrátt fyrir að skólpið sé hreinsað benda Veitur þó á í tilkynningu sinni að klósett eru ekki ruslafötur og Íslendingar setja enn mikið magn af rusli í klósettið og í vaskinn sem eiga alls ekki heima þar, líkt og blautþurrkur, bindi, eyrnapinna, tannþráð eða aðrar hreinlætisvörur. Þau hafa undanfarin misseri staðið fyrir átakinu „Blautþurrkan er martröð í pípunum“ sem er ætlað að vekja athygli á því og benda í því samhengi á að Íslendingar sturta fjórfalt meira niður en Svíar, sem eru þó talsvert fleiri en við Íslendingar erum.

 „Ég er ekki með nýjar tölur um magn og það tekur langan tíma að sjá því við vigtum það sem er hreinsað frá og ég veit ekki hvort það hefur minnkað. En við munum halda þessu átaki áfram því klósettin eru ekki ruslafata,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, aðspurð um hvernig átakið gangi.

Blautþurrkur og fita slæm blanda 

 Í tilkynningunni er einnig fjallað um svokallaða fituhlunka eða „fatbergs“ sem eru vandamál víða í fráveitukerfum. „Við höfum ekki séð þessa fituhlunka í sama magni og kannski eins og í London í vetur, en þeir eru sannarlega líka vandamál hjá okkur. Þeir tengjast að miklu leyti blautþurrkunum, því þegar fitan kemur í kerfið og fitan fer í klútinn þá er það byrjunin á svona klumpi. Þetta skapar vandamál í fráveitukerfinu og fer illa með búnaðinn,“ segir Ólöf. 

Ólöf vísar þá í fituklump sem myndaðist í fráveitukerfinu í austur London í september á síðasta ári sem var jafn þungur og ellefu tveggja hæða strætisvagnar, eða 130 tonn og 250 metrar að lengd. Í frétt Guardian um málið segið að mennirnir sem hann hafi hreinsað hafi þurft að vera í sérstökum búningum. Klumpurinn hafði myndast vegna blautþurrka, bleyja og fitu sem safnast hafði saman og á endanum stíflaði kerfið. Hann var sá stærsti sem hafði sést í London. 

Hér að neðan er hægt að sjá mynd úr British Museum of Art en þar opnaði sýning í febrúar síðastliðnum þar sem hluti af klumpinum er til sýnis.

Hér má sjá mynd af klumpinum. Hann verður til sýnis á safninu til 1. júlí. EPA/FACUNDO ARRIZABALAG
Starfsfólkið sem hreinsaði klumpinn þurfti að vera í sérstökum búningum. EPA/FACUNDO ARRIZABALAG

Falskar tennur og laskaður playmo karl

Þó álíka klumpar hafi ekki fundist hér á landi, enn, segir Ólöf að fólk þurfi að fara gætilega og talar þá sérstaklega um blautþurrkurnar. Hún segir allskyns blautþurrkur finnast í fráveitukerfinu og þótt standi á umbúðunum að það megi sturta þeim niður, þá sé það ekki rétt. „Þegar við höfum þurft að hleypa óhreinsuðu skolpi í sjó erum við mest að sjá af blautþurrkunum. Þær leysast ekki upp eins og klósettpappír og notkun þeirra hefur aukist gífurlega undanfarin ár. Það er verið að nýta þær í svo margt, eldhúsið, klósettið, andlitið og svo auðvitað fyrir litlu börnin,“ segir Ólöf. 

Ólöf segir að það sé þó alls ekki það eina sem finnist í pípunum og vísar í mynd sem hún birti á Facebook-síðu Veitna í apríl sem sýnir, meðal annars, falskar drakúla-tennur og laskaðan playmo karl. Myndina er hægt að sjá hér að neðan.

Það sem er síað er ekki flokkað

Það sem síað er frá er síðan urðað, óflokkað. Það leynist að sjálfsögðu margt þar, eins og eyrnapinnar og annað og að sögn Ólafar er erfitt að flokka það sem fer í gegnum fráveitukerfið. „Það sama á við um fituna, það má ítreka það, að hún á alls ekki heima í fráveitukerfinu. Það á láta hana storkna og setja í ruslið. Það er alger óþarfi að hún fari fyrst í gegnum fráveitukerfið, áður en hún er urðuð. Þetta skapar auka kostnað og vinnu.“

Hreinsistöðin eins og fyrr segir, síar frá sand, fitu og smáa hluti sem fara í fráveitukerfið, en örplastið kemst enn í gegn.

 „Við vitum ekki svo mikið eins og er um örplastið og það er verið að skoða málið. Við erum kannski hlynntari því að taka á örplastinu nær upptökunni, í notkun þá. Mikið af því fer út í sjó án þess að fara nokkurn tíma í gegnum hreinsistöðvarnar. Mesta magnið kemur frá umferð úr dekkjum og úr götumálningu. Ef við erum að tala um snyrtivörur og annað þá er það mjög lítill hluti af því örplasti sem er í sjónum, kannski um eitt prósent,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna í samtali við Fréttablaðið.

Sjá einnig: Plast úr dekkjum og gervi­­grasi stór hluti örplasts í hafi

Til stendur að opna aðra slíka hreinsistöð í Borgarnesi á næstu vikum og segir Ólöf að með því séu Veitur komnar með slíka hreinsistöðvar á allt það svæði þar sem þau sjá um fráveitu. Veitur annast uppbyggingu og reka fráveitukerfi fyrir um 40% landsmanna, í Reykjavík, Borgarnesi, á Akranesi, Bifröst, Hvanneyri, Varmalandi og í Reykholti auk þess að hreinsa skólp frá fráveitum í Kópavogi, Mosfellsbæ, Seltjarnarnesi og hluta Garðabæjar í hreinsistöðvum sínum við Ánanaust og Klettagarða. Í Borgarbyggð reka Veitur fjórar tveggja þrepa hreinsistöðvar þar sem, auk grófhreinsunar, fer fram niðurbrot á lífrænum efnum áður en hreinsuðu skólpi er veitt í viðkvæman viðtaka. Veitur þjóna þannig um 60% landsmanna með fráveitu en 77% landsmanna býr við skólphreinsun er uppfyllir kröfur samkvæmt reglugerð.

Sjá einnig: Rannsókn á plastmengun hafin

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Plast úr dekkjum og gervi­­grasi stór hluti örplasts í hafi

Innlent

Örplast finnst í íslensku neysluvatni

Umhverfismál

Rannsókn á plastmengun hafin

Auglýsing

Nýjast

Aug­lýsa eftir verslunar­manni í Ár­nes­hreppi

Fyrir­skipa rann­sókn á hvernig 737-vélarnar fengu flug­leyfi

Fram­sýn slæst í för með VR og Eflingu

Síbrotamaður áfram í gæsluvarðhaldi

„Mér fannst ég gríðar­lega mis­heppnuð“

Fimmtíu fastir um borð í logandi farþegaflugvél

Auglýsing