Vafasamt met var því sem næst slegið í vikunni þegar 934 blautklútar fundust í fjörunni í Bakkavík á Seltjarnarnesi, en starfsmenn Umhverfisstofnunar vakta hana sérstaklega til að meta útbreiðslu mengunar af þessu tagi.

Að því er fram kemur á vef stofnunarinnar hefur það aðeins einu sinni gerst áður að fleiri blautklútar hafi fundist á þessum afmarkaða reit frá því vöktunin hófst fyrir þremur árum, en þá reyndust þeir vera 977.

Vöktunin í fjörunni í Bakkavík felur í sér að tína allt rusl á 100 metra kafla, fjórum sinnum á ári. Auk blautklúta og annars úrgangs sem berst með skólpi í sjóinn, svo sem eyrnapinna og dömubinda, finnst þar mest af ýmiss konar plasthlutum.