„Ég tel engan vafa á því að þegar talað er um sjálfstæðan framleiðanda, þá sé ekki einungis verið að tala um stórt fyrirtæki, heldur geti það verið einstaklingur líka. Rekstrarformið á þeim á ekki að skipta neinu máli, aðeins sjálfstæði þeirra,“ segir Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku, þá rann stór hluti af þeim 766 milljónum króna sem Ríkisútvarpið varði til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum í dagskrárgerð, í þætti sem framleiddir voru af Ríkisútvarpinu og verktakagreiðslur. Bæði Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda og Samtök iðnaðarins telja þetta orka tvímælis, og sé ekki í samræmi við upplegg þjónustusamnings Ríkisútvarpsins við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Ráðuneytið hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum.

Ekki tæmandi talning

Stefán segir skilgreiningu Ríkisútvarpsins vera í samræmi við skilgreininguna í þjónustusamningnum sjálfum.

Í þjónustusamningnum segir að Ríkisútvarpið skuli „styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni.“ Þá segir í viðauka samningsins að um sé að ræða „kaup á dagskrárefni af sjálfstæðum framleiðendum, meðframleiðsla, aðkeypt þjónusta þar á meðal vegna talsetningar, leiga á búnaði og fleira.“ „Og fleira. Þannig að þetta er ekki tæmandi talning sem að getur fallið þarna undir,“ segir Stefán. „Markmiðið í samningnum er auðvitað að auka fjölbreytni í dagskrárgerðinni, þannig að hún sé ekki bara bundin við starfsfólk RÚV, heldur sé keypt dagskrárefni annars staðar frá. Svo eru einstaklingar sem koma inn með stöku útvarpsseríur eða innslög í þætti, eða eitthvað í þá veru.“

Gott fyrir alla að skilgreiningin sé skýr

Samkvæmt tölum Ríkisútvarpsins hafa sjálfstæðir framleiðendur fengið greitt langt umfram lágmark þjónustusamningsins. „Á þessum fjórum árum hefur RÚV greitt 664 milljónir umfram það sem samningurinn gerir kröfu um,“ segir Stefán. „Samningurinn er auðvitað útrunninn. Ef það eru einhverjar athugasemdir við þetta í gegnum tíðina þá er eðlilegt að fara yfir það.“

Nýr þjónustusamningur er nú í vinnslu. Stefán segir líklegt að samið verði um að Ríkisútvarpið haldi áfram kaupum af sjálfstæðum framleiðendum, en það blasi við að nýi þjónustusamningurinn þurfi að vera skýrari hvað þetta varðar. „Það er engin ástæða til að það sé einhver deila um hvað fellur undir þessa skilgreiningu. Það er gott fyrir alla aðila að þetta sé skýrt.“

Mörður Árnason, fulltrúi í stjórn Ríkisútvarpsins, segir að hann hafi ekki farið ofan í yfirlitið en stjórnin hafi fengið þau svör að þetta atriði sé í lagi og að ráðuneytið hafi ekki gert athugasemdir við skilgreiningu Ríkisútvarpsins. „Við höfum líka, með árangri, kallað eftir því á undanförnum árum að verktaka sé raunveruleg verktaka,“ segir Mörður, en ástæða sé til betra eftirlits.

Halda áfram tiltekt í rekstri

Stefán sendi bréf til starfsfólks fyrir helgi þar sem kemur fram að búist sé við 200 til 300 milljóna króna tekjusamdrætti á næsta starfsári, vegna samdráttar í auglýsingatekjum. Í bréfinu segir að gripið verði til hagræðingaraðgerða á öllum sviðum. Þá verður starfsmannavelta notuð til að fækka starfsfólki, og starfsfólki yfir 65 ára verður boðið að lækka starfshlutfall um helming.

„Við erum háð auglýsingatekjum eins og aðrir fjölmiðlar, þó svo að við höfum aðrar tekjur líka. Við þurfum að bregðast við þessari stöðu og gera það með skynsamlegum hætti,“ segir Stefán. Hann segir þetta ekki breyta sinni afstöðu um að skynsamlegast sé að Ríkisútvarpið verði áfram á auglýsingamarkaði. „Þetta breytir ekki minni afstöðu, en það þarf að velta fyrir sér, í pólitísku samhengi fyrst og fremst, hvernig fjármagna á rekstur almannaþjónustuútvarps og -sjónvarps.“

Hann segir að þó reksturinn undanfarin ár hafi verið réttum megin við núllið, þá megi lítið út af bera. „Ég held að það sé tilefni til að halda áfram þeirri tiltekt í rekstri sem hefur verið í gangi á undanförnum árum, það er enn í ýmis horn að líta, sem við erum að skoða núna.“