„Þetta er hátíð sem við í Jafningjafræðslunni höfum planað alveg sjálf og við erum að gera þetta til styrktar góðu málefni,“ segir Katla Njálsdóttir, jafningjafræðari hjá Hinu húsinu, en í dag slær Jafningjafræðslan upp götuhátíð þar sem safnað verður fjármunum til styrktar Ljósinu, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.

Hátíðin verður haldin í Hinu húsinu á Rafstöðvarvegi 7 í Elliðaárdalnum milli klukkan 15.30 og 18 í dag og fram koma hinir ýmsu listamenn. „Allir sem koma fram á hátíðinni gefa vinnu sína og meðal þeirra sem koma fram eru Jói P & Króli og Svala Björgvins,“ segir Katla.

„Við höfðum samband við listamennina í síma og á Instagram og langflestir tóku ótrúlega vel í þetta, það er eiginlega alveg magnað að allt þetta fólk sé til í að gera þetta fyrir okkur,“ bætir hún við. Á hátíðinni verður einnig happdrætti með frábærum vinningum og seldar verða pítsur, vöfflur og kleinuhringir. Allur ágóðinn af sölunni rennur beint til Ljóssins.

Aðspurð að því hvers vegna Ljósið varð fyrir valinu, segir Katla að hugmyndin hafi verið hennar. „Þegar við byrjum í Jafningjafræðslunni förum við á þriggja vikna námskeið þar sem við lærum um ýmsa hluti sem eru í gangi í samfélaginu, eins og Black Lives Matter, baráttu hinsegin fólks og femínisma og svo nýttum við líka tímann til þess að kynnast hvert öðru,“ útskýrir Katla.

„Það gerðum við með því að opna okkur fyrir hverju öðru og þá sagði ég krökkunum að ég hefði misst pabba minn úr krabbameini þegar ég var lítil og sagði þeim frá Ljósinu. Svo vorum við bara öll sammála um að það væri málefnið sem við vildum styrkja,“ heldur hún áfram.

Jafningjafræðslan er hópur á vegum Hins hússins sem samanstendur af ungu fólki á aldrinum 16-19 ára. Starf hópsins felst í því að fræða ungmenni sem starfa í vinnuskólanum um ýmis samfélagsmál og efla gagnrýna hugsun. Katla segir starfið einkar skemmtilegt og að hún sjálf hafi lært mikið.

„Þetta er eitthvað annað skemmtilegt. Að fá borgað fyrir það að vera í leikjum og tala er frábært, ég viðurkenni að ég hef mjög gaman af því að tala og segja frá mínum skoðunum svo þetta hentar mér mjög vel,“ segir Katla og hvetur þá sem hafi gaman að því að tala eins og hún, að mæta á lifandi bókasafn sem er einn viðburður hátíðarinnar.

„Það verða hérna þekktir Íslendingar með það eitt að markmiði að tala við gesti. Þau koma úr ólíkum áttum og sitja hér við borð, svo getur hver sem er sest hjá þeim og spjallað. Þetta verða til dæmis Patrekur Jamie og Hildur Yeoman.“