Í dag spáir Veðurstofan suðvestan 10-18 m/s, en 18-23 m/s staðbundið í vindstrengjum á Norðurlandi og einnig austan Öræfajökuls. Dálítil rigning eða slydda, en léttskýjað á austanverðu landinu. Dregur smám saman úr vindi þegar kemur fram á daginn og styttir upp að mestu. Hiti 2 til 7 stig, en svalara í kvöld.

Í nótt gengur í sunnan 13-20 m/s með rigningu eða slyddu, en þurrt um landið norðaustanvert. Það snýst svo í suðvestan 15-23 m/s á morgun með éljum og kólnandi veðri.

Í hugleiðingum veðurfræðings kemur fram að það sé búist við suðvestanátt á fimmtudag, en að vindur gefi eftir. Hins vegar eru líkur á auknum éljagangi. Á föstudag og laugardag er útlit fyrir hægari vind og minni úrkomu, en það verður kalt.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Sunnan 13-20 m/s framan af degi og rigning eða slydda, en úrkomulítið um landið norðaustanvert. Hiti 1 til 6 stig. Vestlægari síðdegis með éljum og kólnar í veðri. 

Á fimmtudag: Suðvestan 10-15 og éljagangur, en þurrt á Austurlandi. Hiti um eða rétt undir frostmarki. 

Á föstudag: Norðvestan 3-8, en 8-13 austanlands. Él um landið norðanvert, en víða bjart í öðrum landshlutum. Frost 0 til 6 stig. Hægviðri og léttskýjað um kvöldið og herðir á frosti. 

Á laugardag: Hæg breytileg átt og víða bjart framan af degi. Gengur í suðvestan 8-13 seinnpartinn með snjókomu eða slyddu sunnan- og vestanlands. Minnkandi frost. 

Á sunnudag: Útlit fyrir suðvestanátt með úrkomu og hita kringum frostmark, en þurrt norðaustantil á landinu. 

Á mánudag: Norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og stöku él. Frost um mestallt land.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Allar leiðir eru greiðfærar.

Vesturland: Víða eru vegir orðnir greiðfærir en hálkublettir eru á Bröttubrekku og Holtavörðuheiði og frekar hvasst.

Vestfirðir: Víða eru vegir orðnir greiðfærir en eitthvað er um hálkublettir á fáfarnari vegum. Þæfingur er norður í Árneshrepp.

Norðurland: Víða eru vegir orðnir greiðfærir en þó er hálka, hálkublettir eða krapi á nokkrum fáfarnari leiðum.

Norðausturland: Víða eru vegir orðnir greiðfærir þó en sé eitthvað um hálkublettir á fjallvegum.

Austurland: Vegir eru víðast hvar greiðfærir en sumstaðar eru hálkublettir á fjallvegum. Krapi er á fáeinum sveitavegum.

Suðausturland: Aðalleiðin er greiðfær en einhver krapi er á útvegum.

Suðurland: Allar leiðir eru greiðfærar.