Blaðamennirnir fjórir hafa ekki enn verið boðaðir í skýrslutöku af lögreglunni á Akureyri vegna máls Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja.

Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Akureyri, kveðst engar upplýsingar geta gefið um stöðu málsins né hvort búið sé að boða blaðamennina til skýrslutöku.

„Það er engar upplýsingar hægt að veita um þetta,“ sagði Páley í samtali við Fréttablaðið og gaf ekkert upp.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa fjórmenningarnir ekki verið kallaðir til skýrslutöku enn sem komið er og hafa lítið heyrt frá lögreglunni.

Þórður Snær Júlíusson, ristjóri Kjarnans, segist enga hugmynd hafa um fyrirhugaða skýrslutöku lögreglunnar. „Það hefur enginn haft samband við mig frá þessu lögregluembætti nema þarna 14.febrúar. Svo hafa átt sér stað mjög svona lítil samskipti milli lögmanna okkar og þeirra útaf einhverjum formsatriðum en að öðru leyti höfum við ekkert heyrt í þessu fólki,“ segir Þórður Snær.

Miðlun klámefnis

Í febrúar voru þau Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður á Kjarnanum, Aðalsteinn á Stundinni og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks boðuð til yfirheyrslu af lögreglunni á Akureyri og var það upphaflega talið vera vegna umfjöllun þeirra um hina svokölluðu „skæruliðadeild“ Samherja. Síðar kom í ljós að rannsóknin tengdist ekkert þeim skrifum.

Í kröfugerð lögreglunnar kemur fram að fjórmenningarnir séu ekki grunaðir um þjófnaðarbrot heldur miðlun klámefnis og brot á friðhelgi.

Í máli Páls liggur fyrir játning þriðja aðila um að hafa eitrað fyrir Páli ásamt því að taka síma hans og afhenda hann fjölmiðlafólki.

Hæstiréttur vísaði málinu frá

Aðalsteinn óskaði eftir því að dómstóll skæri úr um það hvort lögreglu hefði verið heimilt að kalla hann til yfirheyrslu sem sakborning í málinu og úrskurðaði héraðsdómur að henni hafi ekki verið heimilt að veita honum réttarstöðu grunaðs manns.

Hins snéri Landsréttur málinu við og vísað málinu frá héraðsdómi og taldi ekkert hafa komið fram um að lögregla hafi ekki gætt réttra formlegra aðferða þegar hún hóf rannsókn á málinu.

Aðalsteinn kærði úrskurð Landsréttar til Hæstaréttar sem hefur nú tekið afstöðu og vísað málinu frá dómi.

Málið er því á upphafspunkt og ljóst er að lögreglan á Akureyri hefur heimild til að kalla blaðamennina til yfirheyrslu sem hefur enn ekki verið gert.