Blaða­mennirnir fjórir, sem hafa réttar­stöðu sak­bornings vegna meintra brota á frið­helgi einka­lífs, hafa aftur verið boðaðir í skýrslu­töku hjá lög­reglunni á Norður­landi eystra. Tveir þeirra hafa þegar mætt til skýrslu­töku. Frétta­stofa RÚV greinir frá.

Þóra Arnórs­dóttir á RÚV, Aðal­steinn Kjartans­son á Stundinni og þeir Þórður Snær Júlíus­son og Arnar Þór Ingólfs­son á Kjarnanum eru öll með réttar­stöðu sak­bornings vegna frétta­flutnings í fyrra­vor um sam­skipti fólks sem tengdist sjávar­út­vegs­fyrir­tækinu Sam­herja að ein­hverju leyti og til­raunir þess til að hafa á­hrif á um­ræðu um fyrir­tækið í fjöl­miðlum. Þessi hópur kallaði sig „skæru­liða­deildina.“

Páll Stein­gríms­son, skip­stjóri hjá Sam­herja, var bendlaður við hópinn, en málið gegn blaða­mönnunum fjórum kemur til vegna kæru Páls til lög­reglunnar á Norður­landi eystra í maí í fyrra. Páll kærði stuld á síma sínum á meðan hann lá með­vitundar­laus á sjúkra­húsi, en grunur leikur á að upp­lýsingarnar sem birtust í fréttaflutningi fyrr­nefndra blaða­manna hafi verið fengnar úr síma Páls.