Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna hafa gefið út yfirlýsingu vegna ummæla Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Facebook-síðu sinni. Þar varpaði Bjarni fram þeirri spurningu hvort fjölmiðlamenn væru of góðir til að mæta og svara spurningum lögreglu eins og almennir borgarar vegna umfjöllunar um svokallaða skæruliðadeild Samherja.

„Blaða- og fréttamenn eru sem einstaklingar jafnir öðrum að lögum, t.d. ef þeir eru grunaðir um ölvunarakstur, fjársvik eða ofbeldisbrot. Um störf þeirra gegnir hins vegar öðru máli. Um þau gilda önnur lög og reglur en um önnur störf, vegna hlutverks þeirra,“ segir í yfirlýsingunni sem gefin er út til að svara spurningu Bjarna.

Þá er tekið fram að frelsi blaðamanna til að fjalla um mikilvæg fréttamál og veita valdhöfum aðhald séu lýðræðissamfélaginu lífsnauðsynleg og að án frjálsrar blaðamennsku þrífist ekkert lýðræði. Blaðamennska geti verið og eigi að vera óþægileg fyrir fólk, stofnanir og fyrirtæki í valdastöðum, því hún afhjúpi mistök, bresti og spillingu í kerfinu.

„Blaðamenn eru sömuleiðis ein fárra stétta sem samkvæmt lögum um meðferð einkamála og sakamála er óheimilt að svara spurningum um heimildarmenn sína og það sem þeim hefur verið trúað fyrir í starfi. Fyrir þessari sérstöku stöðu blaðamanna, sem viðurkennd er í lögum um bæði meðferð einkamála og sakamála, eru gildar ástæður.“

Að lokum ítreka Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna stuðning sinn við þá blaða- og fréttamenn sem hafa verið boðaðir til yfirheyrslu með réttarstöðu sakborninga vegna málsins og hvetja valdhafa til að standa vörð um frjálsa fjölmiðlun í landinu frekar en að ráðast gegn henni.