Af­gerandi meiri­hluti blaða­manna greiddi at­kvæði með vinnu­stöðvunum í at­kvæða­greiðslu Blaða­manna­fé­lags Ís­lands sem fór fram í dag. Blaðamenn hafa verið samningslausir frá því um áramót.

Af þeim sem greiddu at­kvæði sam­þykktu 83,2 prósent með vinnu­stöðvun en 12,9 prósent á móti. Á kjörskrá voru 211 en 131 félagsmenn greiddu atkvæði, sem er 62,1 prósent. 109 manns greiddu atkvæði með verkfalli. Sautján greiddu gegn verkfalli og auðir eða ógildir seðlar voru fimm.

Þar með voru fjórar vinnustöðvanir samþykktar sem fara fram að óbreyttu í næsta mánuði en sú fyrsta er fyrirhuguð föstudaginn 8. nóvember. Aðrar þrjár eru skipulagðar þrjá föstudaga eftir það og ná fyrstu þrjár eingöngu til netmiðla, ljósmyndara og tökumanna.

Vinnustöðvanirnar munu ná til blaða-, frétta- og myndatökumanna hjá Torgi, sem gefur út Fréttablaðið og frettabladid.is, Ríkisútvarpinu, auk Sýnar, sem rekur fréttastofu Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar og Árvakri, sem gefur út Morgunblaðið og mbl.is.

Vinnustöðvanir verða að óbreyttu hjá ljósmyndurum, tökumönnum, blaða-og fréttamönnum eftirfarandi daga:

Föstudaginn 8. nóvember frá klukkan 10 til 14.

Föstudaginn 15. nóvember frá klukkan 10 til 18.

Föstudaginn 22. nóvember frá klukkan 10 til 22.

Fimmtudaginn 28. nóvember er fyrirhuguð vinnustöðvun hjá blaðamönnum á prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og tökumanna, frá klukkan 10-22.

Starfsmenn ritstjórnar Fréttablaðsins eru flestir félagar í Blaðamannafélagi Íslands.

Fréttin hefur verið uppfærð.