Blaða­menn banda­ríska blaðsins New York Times lýstu í gær yfir mikilli ó­á­nægju með þá á­kvörðun yfir­stjórn­enda blaðsins að birta skoðana­grein eftir öldungar­deildar­þing­manninn Tom Cott­on. Í greininni kallar Cott­on eftir því að Donald Trump, Bandaríkjaforseti, beini Banda­ríkja­her gegn borgurum til að stemma stigu við ó­eirðum þar í landi.

Í um­fjöllun CNN um málið kemur fram að bæði hafi blaða­menn á frétta­stofu miðilsins sem og starfs­menn í skoðana­greina­deild blaðsins hafi lýst yfir furðu yfir birtingu greinarinnar. Birtu þó nokkrir starfs­menn skjá­skot af heitinu á greininni og létu fylgja með þá full­yrðingu að greinin setti svarta starfs­menn miðilsins í hættu.

Tals­maður miðilsins vildi ekki tjá sig um málið við frétta­mann CNN. James Bennet, einn rit­stjóra miðilsins, út­skýrði þó á­kvörðun sína að baki þess að leyfa birtingu pistilsins á Twitter.

Nefndi hann að fjöldi að­sendra greina miðilsins hefði fjallað um upp­runa og or­sakir nú­verandi á­stands í landinu og þá for­dóma sem stór hluti Banda­ríkja­manna verður fyrir á hverjum degi.

„Times Opinion skuldar les­endum sínum að þeim séu sýnd aðrar rök­semda­færslur, sér­stak­lega þeirra sem eru í valda­stöðum,“ segir Bennet.

„Við skiljum að mörgum les­endum þyki rök­semda­færslan sárs­auka­full, jafn­vel hættu­leg,“ segir hann enn­fremur. „Við trúum því að það sé ein á­stæða þess að þetta þurfi al­menna skoðun og rök­ræðu.“

Í greininni full­yrðir þessi öldungar­deildar­þing­maður Repúblikana meðal annars að lög­gæslu­lið í ýmsum borgum sé í „sárri neyð“ vegna ó­eirðanna sem hafa geysað í Banda­ríkjunum í kjöl­far þess að lög­reglu­maður myrti Geor­ge Floyd í síðustu viku. Færði hann jafn­framt fyrir því rök að beiting her­liðs gegn borgurum kalli ekki á setningu her­laga.

Þá full­yrti hann jafn­framt að með­limir Antifa hreyfingarinnar svo­kölluðu hefðu nýtt sér kröfu­göngur „í eigin anar­kískum til­gangi.“
Bendir Da­vey Alba, blaða­maður miðilsins meðal annars á að þær full­yrðingar hafi verið hraktar af blaða­mönnum NY Times í síðustu viku.