Blaðamenn mbl.is lýsa yfir vonbrigðum með framferði og viðhorf ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins, sem kölluðu til starfsmenn til að skrifa fréttir fyrir vefinn á meðan verkfall blaðamanna netmiðla stóð yfir í dag milli 10 og 14 í dag.

Yfirlýsingin birtist á press.is, vef Blaðamannafélags Íslands og skrifa blaðamenn og fréttstjórar á frétta- og íþróttadeild mbl.is undir.

„Um leið og blaðamenn á mbl.is lögðu niður störf í morgun tóku nokkrir blaðamenn á Morgunblaðinu, sem að öllu jöfnu skrifa ekki fréttir á mbl.is, til við að skrifa fréttir á mbl.is. Að auki voru fyrrverandi sumarstarfsmaður og lausapenni á Morgunblaðinu kallaðir til til þess að skrifa fréttir á mbl.is á meðan þeir blaðamenn miðilsins, sem voru á vakt á þessum tiltekna tíma, lögðu niður störf í samræmi við löglega boðaðar aðgerðir sem stóðu til klukkan 14,“ segir í yfirlýsingu blaðamanna mbl.is og er tekið fram að umrædd fréttaskrif hafi verið með vitund og vilja ritstjóra og framkvæmdastjóra Morgunblaðsins.

Verk­fall blaða­manna, ljós­myndara og mynda­töku­manna hjá Fréttablaðinu, miðlum Sýnar, Morgunblaðsins og RÚV fór fram í dag en meðan verkfallinu stóð í dag birtust ýmsar fréttir á mbl.is. Töku­maður RÚV sást einnig á skrif­stofu Sýnar að taka upp efni.

Blaðamennirnir telja framferði ritstjóra og framkvæmdastjóra vera til þess fallið að varpa rýrð á mbl.is og ekki síst á þá blaðamenn sem sinna starfi sínu af heilindum og fagmennsku. „Að okkar mati er þetta síst til þess fallið að finna vænlega lausn á kjaradeilunni sem nú stendur yfir,“ segir í yfirlýsingunni.

„Með því að senda þessa yfirlýsingu viljum við að það komi skýrt fram að þær fréttir og umfjallanir, sem skrifaðar voru og birtar á mbl.is á meðan á löglega boðuðum aðgerðum félaga í Blaðamannafélagi Íslands stóð, eru ekki á okkar ábyrgð.“

Eftirfarandi blaðamenn skrifuðu undir yfirlýsinguna:

Anna Sigríður Einarsdóttir, Anna Lilja Þórisdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Erla María Markúsdóttir, Freyr Bjarnason, Guðmundur Hilmarsson, Guðrún Hálfdánardóttir, Hallur Már Hallsson, Ívar Benediktsson, Jóhann Ólafsson, Jón Pétur Jónsson, Kristján Jónsson, Sindri Sverrisson,  Sólrún Lilja Ragnarsdóttir, Víðir Sigurðsson, Þorgerður Anna Gunnarsdóttir, Þorsteinn Ásgrímsson Melén og Þórunn Kristjánsdóttir