Ljósmyndarar og blaðamenn á vef Fréttablaðsins gengu út af ritstjórn Torgs ehf. nú klukkan tíu til að krefjast betri launa og starfsskilyrða.

Þetta er fyrsta af fjórum vinnustöðvunum sem félagsmenn í Blaðamannafélagi Íslands (BÍ) samþykktu í síðustu viku. Stéttin fór síðast í verkfall árið 1978 fyrir rúmum fjórum áratugum.

Sú vinnustöðvun sem nú stendur yfir nær til Fréttablaðsins, Morgunblaðsins, Sýnar og RÚV og þeir starfsmenn sem lagt hafa niður störf eru ljósmyndarar, myndatökumenn og fréttamenn á vefmiðlum.

Verkfallsverðir munu fylgjast með því að ekkert efni verði sett á vefmiðla umræddra fjölmiðla þá fjóra tíma sem vinnustöðvunin stendur yfir og að ekki verði gengið í störf ljósmyndara og myndatökumanna með ólögmætum hætti.

Hafa dregist mest aftur úr allra stétta

Samningslaust hefur verið milli BÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA) sem fer með samningsumboð miðlanna fjögurra í tíu mánuði en sjö mánuðir eru síðan kjarasamningar voru gerðir á almennum vinnumarkaði.

Á vef BÍ kemur fram að í tilboði frá SA dagsettu 26. september sé blaðamönnum boðið minna en öllum öðrum auk þess sem í tilboðinu séu gerðar kröfur um að blaðamenn afsali sér réttindum sem þeir hafi áunnið sér í gegnum tíðina.

Meðal helstu krafna blaðamanna er launaleiðrétting en þeir tóku á sig launaskerðingu í kjölfar efnahagshrunsins líkt og margar aðrar stéttir en telja hana ekki hafa gengið til baka og þeir hafi dregist mjög aftur úr í kjörum samanborið við aðrar háskólamenntaðar stéttir.

„Þetta eru auðvitað blendnar tilfinningar og eitthvað sem maður hefur engan sérstakan áhuga á að fara í en blaðamenn verða auðvitað að standa með sjálfum sér. Það liggur alveg fyrir að laun þeirra eru ömurleg,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður BÍ.

Engir samningafundir boðaðir

Náist ekki samningar munu sömu hópar leggja niður störf næstu tvo föstudaga, fyrst í átta tíma og svo í tólf tíma. Hafi enn ekki verið samið munu blaðamenn á prentmiðlum leggja niður störf fimmtudaginn 28. nóvember.

Engir formlegir samningafundir hafa verið boðaðir milli BÍ og SA sem fer með samningsumboð miðlanna fjögurra. Hjálmar segist hafa átt í óformlegum samræðum við SA en ekkert hafi komið út úr þeim.

Samningur náðist í gær milli Blaðamannafélagsins og Útgáfufélags Stundarinnar sem er í aðalatriðum samhljóma þeim samningum sem hafa verið gerðir við Birtíng og Kjarnann.

Blaðamenn og ljósmyndarar á ritstjórn Fréttablaðsins eru félagar í Blaðamannafélaginu og annar höfunda fréttarinar situr í samninganefnd blaðamanna.