Blaða­mennirnir Maria Ressa og Dmi­try Muratov sem hafa barist fyrir fjöl­miðla­frelsi á Filipps­eyjum og í Rúss­landi hlutu friðar­verð­laun Nóbels í dag.

„Þau eru full­trúar allra blaða­manna sem standa fyrir þessari hug­sjón í heimi þar sem lýð­ræði og rit­frelsi standa frammi fyrir sí­fellt fjand­sam­legri að­stæðum,“ sagði Berit Reiss-Ander­sen for­maður Norsku Nóbels­nefndarinnar, á blaða­manna­fundi.

Ressa, sem er einn af stofn­endum frétta­síðunnar Rapper, var heiðruð fyrir að nota tjáningar­frelsi sitt til að „af­hjúpa vald­níðslu, beitingu of­beldis og vaxandi vald­boðs­stefnu í föður­landi sínu Filipps­eyjum.“

Líkt og síðasta ár var engin verð­­launa­at­höfn í Stokk­hólmi vegna á­hrifa Co­vid-19 far­aldursins. Verð­­launa­hafarnir á­vörpuðu því fjölmiðla í gegnum fjar­funda­búnað.

Ressa sagðist vera „í sjokki“ yfir verð­laununum.

„Ekkert er mögu­legt án stað­reynda… heimur án stað­reynda þýðir heimur án sann­leika og trausts,“ sagði hún.

Nefndin sagði að Muratov, með­stofnandi og rit­stjóri sjálf­stæða dag­blaðsins Novaja Gazeta, hefði ára­tugum saman barist fyrir tjáningar­frelsi í Rúss­landi undir sí­versnandi að­stæðum.

Muratov lýsti verð­laununum sem mála­gjöldum fyrir rúss­neska blaða­mennsku sem er niður­bæld þar í landi.

„Ég er hlæjandi. Ég bjóst alls ekki við þessu. Þetta er al­gjör vit­firring hérna,“ sagði hann í við­tali við Telegram rásina Po­dyom.

Rúss­neska ríkis­stjórnin óskaði Muratov til hamingju með verð­launin og sagði hann vel að þeim kominn.