Lögreglan á Akureyri rannsakar kynferðisbrot gegn Páli Steingrímssyni, skipstjóra Samherja, sem að sögn lögreglu felst í því að blaðamenn hafi veitt viðtöku og miðlað upplýsingum sem hafi innihaldið klámefni úr hans einkaeigu.

Stundin greinir frá.

Í kröfugerð lögreglu sem Stundin virðist hafa undir höndum kemur fram að lögreglan telji sig hafa fengið játningu aðila sem er nákomin Páli um að hafa byrlað Páli svefnlyfjum, tekið síma hans og dreift efni til fjölmiðla í maí í fyrra. Hugsanlega í hefndarskyni og símanum hafi svo verið komið í hendur ótilgreinds blaðamanns.

Fjórir blaðamenn voru boðaðir til yfirheyrslu af lögreglunni á Norðurlandi eystra og var það talið vera vegna umfjöllunar sinnar um svokallaða „skæruliðadeild“ Samherja. Nú hefur hins vegar komið í ljós að rannsóknin sé ótengd þeim skrifum.

Blaðamennirnir sem um ræðir eru þau; Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður á Kjarnanum, Aðalsteinn á Stundinni og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks.

Kröfugerð lögð fram í dag

Lögreglan lagði fram kröfugerð í dag sem Stundin hefur undir höndum. Í henni kemur fram að lögreglan viti hver heimildarmaðurinn sé og er málsatvikum lýst í kröfugerðinni.

Stundin greinir frá því að blaðamennirnir fjórir séu ekki grunaðir um þjófnaðarbrot heldur miðlun klámefnis og brot á friðhelgi.

Í kröfugerð lögreglunnar kemur eftirfarandi fram samkvæmt Stundinni: „Þau sakarefni sem er verið að rannsaka er líkamsárás (byrlun) og friðhelgisbrot. Rannsóknin snýst einnig um meint kynferðisbrot (dreifing á kynferðislegu myndefni),“ segir í kröfugerðinni. Þar kemur skýrt fram að sakborningur „er sá maður sem borinn er sökum og/eða grunaður um refsiverða háttsemi.“

Þá kemur jafnframt fram að lögreglan hafi staðfest að myndbönd af kynferðislegum toga hafi verið í síma brotaþola og að afrit slíka myndbanda hafi verið sent út símanum. Bortaþoli hafi staðfest við lögreglu að sími hans hafi innihaldið myndbönd af honum í kynlífsathöfnum.

Stundin greinir frá því að fram komi í kröfugerðinni að lögreglan segist hafa samskipti blaðamanna við heimildarmanninn undir höndum.

Lögreglan fordæmi blaðamenn

Stundin greinir að í kröfugerðinni fordæmi lögreglan blaðamennina fyrir að hagnýta sér viðkvæma stöðu heimildarmanns.

Fjölmiðlar hafi nýtt sér augljóst brot heimildarmannsins sér í hag, faglega og fjárhagslega. Í stað þess að staldra við og veita viðkomandi stuðning og hjálp.

Kröfugerð lögreglunnar er tilkomin vegna ósk Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni, að dómstóll skæri úr um það hvort lögreglan hefði heimild til að yfirheyra hann sem sakborning.

Umfjöllun Stundarinnar má lesa í heild sinni hér.