Bandaríska dagblaðið The New York Times hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að reka blaðamanninn Lauren Wolfe eftir að hún birti tíst um Joe Biden Bandaríkjaforseta og gagnrýndi ríkisstjórn Donalds Trump.

Sagðist blaðamaðurinn hafa fengið gæsashúð við að sjá flugvél Joe Biden lenda í Washington D.C. áður en hann var settur í embætti. Einnig gagnrýndi hún fyrrverandi ríkisstjórn fyrir að hafa ekki sent herþotu til að sækja Biden. Hún hefur eytt tístunum en hér fyrir neðan má sjá skjáskot.

Mynd:Skjáskot
Mynd: Skjáskot

Stjórnendur blaðsins hafa ekki tjáð sig um ástæðu uppsagnarinnar og Wolfe biðlar til fylgjenda sinna á Twitter að segja ekki upp áskrift við blaðið þótt hún hafi verið rekin.

Skoðanir fjölmiðlafólks hafa lengi verið til umræðu, meðal annars hér á landi. Í annari grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands segir:

„Blaðamanni er ljós persónuleg ábyrgð á öllu sem hann skrifar. Hann hefur í huga að almennt er litið á hann sem blaðamann þó að hann komi fram utan síns eiginlega starfssviðs, í riti eða ræðu.“

Samherji kærir ellefu blaðamenn RÚV til siðanefndar Ríkisútvarpsins vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum. Spurningum var varpað fram hvort blaðamenn ættu að sleppa því að tjá persónulegar skoðanir til þess að rýra ekki traust almennings til hlutlausrar blaðamennsku. Aðrir hafa sagt að hlutlægni sé ómöguleg, og því skulu blaðamenn vera opnir um skoðanir sínar með gagnsæi gagnvart lesendum.