Blaðamannafélag Íslands fordæmir tölvuárás sem gerð var á vef Fréttablaðsins í dag. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórn félagsins, en þar segir að um sé að ræða tilraun til þess að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla, einkum um stríðið í Úkraínu.

„Tölvuárás á vef Fréttablaðsins er alvarleg tilraun til að hafa áhrif á sjálfstæða ritstjórn íslensks fjölmiðils. Samkvæmt bréfi sem ritstjórn blaðsins barst í nótt er árás hótað vegna myndbirtingar Fréttablaðsins í umfjöllun um innrás Rússa í Úkraínu. Áður hefur rússneska sendiráðið á Íslandi krafist afsökunarbeiðni frá ritstjóra Fréttablaðsins vegna myndbirtingarinnar.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn félagsins, en þar segir stendur jafnframt: „Mikilvægi sjálfstæðra og frjálsra fjölmiðla er sérlega mikilvægt í stríðsástandi og fordæmir Blaðamannafélag Íslands allar tilraunir til að hafa áhrif á fréttaflutning fjölmiðla frá stríðinu í Úkraínu. Fréttablaðið hefur kært málið til lögreglu sem hefur það nú til rannsóknar.

Í morgun greindi Fréttablaðið frá því að hafa borist hótunar­póstur þar sem kemur fram að ef rit­stjórn blaðsins biðjist ekki af­sökunar á mynd­birtingu fyrir mið­nætti á Moskvu­tíma, sem er klukkan níu í kvöld, verði vefur blaðsins fyrir tölvu­á­rás.

Málið varðar mynd sem birtist í Fréttablaðinu í gær sem sýndi ein­stak­ling stíga á rúss­neska fánann og segir í mynda­texta: „Úkraínu­menn hafa fundið ný not fyrir rúss­neska fánann.“

Rússneska sendiráðið hefur krafist eftir afsökunarbeiðni frá Fréttablaðinu vegna myndbirtingarinnar.

Ivan Gliskin upplýsingafulltrúi hjá Rússneska sendiráðinu á Íslandi neitaði því síðan að vita nokkuð um netárásina sem gerð var á vef Fréttablaðsins, í morgun. Umferð á eldvegginn hjá Fréttablaðinu tólffaldaðist miðað við venjulega umferð milli klukkan 8 og 9 í morgun.