„Blaðamannafélagið lítur þessa árás á fjölmiðil, mjög alvarlegum augum. Ekki síst vegna þess að það lítur út fyrir að tilgangurinn með árásinni hafi verið að hafa áhrif á og lama starfsemina,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Fyrr í dag staðfesti Reynir Traustason, ritstjóri Mannlífs, við Fréttablaðið að brotist hafi verið inn á ritstjórnarskrifstofu Mannlífs, gögnum eytt og tveimur tölvum stolið.
Brotist inn í kerfi og fréttum eytt
„Þarna er ráðist inn í ritstjórnarkerfi og fréttum eytt af fréttamiðli sem okkur finnst gríðarlega alvarlegt mál, segir Sigríður Dögg.
Málið er komið á borð lögreglu en í gær var einnig brotist inn í bíl Reynis við Úlfarsfell. Ritstjórinn telur að innbrotin séu tengd. Þetta sé ekki hefðbundinn þjófnaður heldur bein árás á starf þeirra í blaðamennsku.
Hefur rætt við Reyni í dag
Aðspurð segist Sigríður þegar hafa heyrt í Reyni vegna málsins.
„Ég er búin að heyra í Reyni en settum okkur í samband til að hann vissi að hann hefði stuðning félagsins í þessu alvarlega máli,“ segir Sigríður. Hún segir málið ömurlegt í alla staði.

„Við erum að sjá árásir á fjölmiðla stigmagnast í samfélaginu. Fyrst Samherji og aðför að Helga Seljan og svo bara halda áfram árásir, innbrot og skemmdarverk. Þetta er þróun sem við erum mjög áhyggjufull yfir og eitthvað sem bæði stéttin og allt samfélagið þarf að ræða.“ segir Sigríður.
Hún segir stjórn Blaðamannafélagsins leggi áherslu á að lögregla þurfi að taka málið alvarlega.
„Við treystum því að lögregla taki málið föstum tökum og líti þetta alvarlegum augum. Því þetta er náttúrulega ekki venjulegt innbrot. Þetta er innbrot í fjölmiðil og við vonum að lögreglan geri sér grein fyrir mikilvægi þess að komast til botns í því hvernig málið er vaxið.“
„Þetta er þróun sem við erum mjög áhyggjufull yfir og eitthvað sem bæði stéttin og allt samfélagið þarf að ræða.“
Reynir sagði Fréttablaðinu fyrr í dag að lögregla hefði mætt á vettvang í morgun og meðal annars tekið fingraför. Engar upptökur séu hins vegar til af innbrotinu.
Verið er að skoða slóð innbrotsþjófanna á netinu en aðilarnir eyddu gögnum í eigu Mannlífs og vefsíða fréttamiðilsins lá niðri í nokkrar klukkustundir.

Mannlíf hefur undanfarið fjallað ítarlega um meinta háttsemi auðmannsins Róberts Wessman og til stóð að flytja fleiri fregnir um málið.
Reynir greindi frá því nýlega á Facebook að bandarísk lögmannsstofa hafi krafið Mannlíf fyrir hönd Róberts að fjölmiðillinn afhenti þeim gögn að baki frétta þeirra um líflátshótanir hans, meint ofbeldi gegn samstarfsfólki og önnur mál sem að honum snúa.
Aðspurður hvort hann telji málið tengjast umfjöllun Mannlífs um Róbert Wessman sagðist Reynir ekki geta fullyrt um það en að tímasetningin sé áhugaverð.