„Blaða­manna­fé­lagið lítur þessa árás á fjöl­miðil, mjög al­var­legum augum. Ekki síst vegna þess að það lítur út fyrir að til­gangurinn með á­rásinni hafi verið að hafa á­hrif á og lama starf­semina,“ segir Sig­ríður Dögg Auðuns­dóttir, for­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands.

Fyrr í dag stað­festi Reynir Trausta­son, rit­stjóri Mann­lífs, við Frétta­blaðið að brotist hafi verið inn á rit­stjórnar­skrif­stofu Mann­lífs, gögnum eytt og tveimur tölvum stolið.

Brotist inn í kerfi og fréttum eytt

„Þarna er ráðist inn í rit­stjórnar­kerfi og fréttum eytt af frétta­miðli sem okkur finnst gríðar­lega al­var­legt mál, segir Sig­ríður Dögg.

Málið er komið á borð lög­reglu en í gær var einnig brotist inn í bíl Reynis við Úlfars­fell. Rit­stjórinn telur að inn­brotin séu tengd. Þetta sé ekki hefð­bundinn þjófnaður heldur bein árás á starf þeirra í blaða­mennsku.

Hefur rætt við Reyni í dag

Að­spurð segist Sig­ríður þegar hafa heyrt í Reyni vegna málsins.

„Ég er búin að heyra í Reyni en settum okkur í samband til að hann vissi að hann hefði stuðning félagsins í þessu alvarlega máli,“ segir Sigríður. Hún segir málið ömurlegt í alla staði.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, leggur áherslu á að lögregla taki málið föstum tökum.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

„Við erum að sjá árásir á fjölmiðla stigmagnast í samfélaginu. Fyrst Samherji og aðför að Helga Seljan og svo bara halda áfram árásir, innbrot og skemmdarverk. Þetta er þróun sem við erum mjög áhyggjufull yfir og eitthvað sem bæði stéttin og allt samfélagið þarf að ræða.“ segir Sigríður.

Hún segir stjórn Blaða­manna­fé­lagsins leggi á­herslu á að lög­regla þurfi að taka málið al­var­lega.

„Við treystum því að lög­regla taki málið föstum tökum og líti þetta al­var­legum augum. Því þetta er náttúru­lega ekki venju­legt inn­brot. Þetta er inn­brot í fjöl­miðil og við vonum að lög­reglan geri sér grein fyrir mikil­vægi þess að komast til botns í því hvernig málið er vaxið.“

„Þetta er þróun sem við erum mjög áhyggjufull yfir og eitthvað sem bæði stéttin og allt samfélagið þarf að ræða.“

Reynir sagði Frétta­blaðinu fyrr í dag að lög­regla hefði mætt á vett­vang í morgun og meðal annars tekið fingra­för. Engar upp­tökur séu hins vegar til af inn­brotinu.

Verið er að skoða slóð inn­brots­þjófanna á netinu en aðilarnir eyddu gögnum í eigu Mann­lífs og vef­síða frétta­miðilsins lá niðri í nokkrar klukku­stundir.

Auk innbrots á ritstjórn Mannlifs var brotist inn í bíl hans í gær. Hann birti myndir af aðkomunni á facebooksíðu sinni.
Mynd: Facebook

Mann­líf hefur undan­farið fjallað ítar­lega um meinta hátt­semi auð­mannsins Róberts Wess­man og til stóð að flytja fleiri fregnir um málið.

Reynir greindi frá því ný­lega á Face­book að banda­rísk lög­manns­stofa hafi krafið Mann­líf fyrir hönd Róberts að fjöl­miðillinn af­henti þeim gögn að baki frétta þeirra um líf­láts­hótanir hans, meint of­beldi gegn sam­starfs­fólki og önnur mál sem að honum snúa.

Að­spurður hvort hann telji málið tengjast um­fjöllun Mann­lífs um Róbert Wess­man sagðist Reynir ekki geta full­yrt um það en að tíma­setningin sé á­huga­verð.