Félagar í Blaðamannafélagi Íslands og félagar í Félagi fréttamanna, stéttarfélag fréttamanna á Ríkisútvarpinu hafa samþykkt að sameina félögin undir merkjum Blaðamannafélags Íslands. Þetta kemur fram í tilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag.
Tillagan var samþykkt á aðalfundi Blaðamannafélags Íslands 28. apríl og á aðalfundi Félags fréttamanna í gærkvöldi. Stétt blaða- og fréttamanna verður því sameinuð undir einu félagi, en félagið verður bæði stéttarfélag og fagfélag. Sameiningin tekur gildi 1. júní.
„Á undanförnum árum hefur verið sótt að faglegri blaða- og fréttamennsku á Íslandi í síauknum mæli,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, formaður Félags fréttamanna, og bætir við að blaða- og fréttamenn þurfi að þétta raðirnar og standa saman gegn þeim ógnum sem steðja að stéttinni.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands segir sameininguna senda sterk skilaboð út í samfélagið um mikilvægi faglegrar blaðamennsku á þeim tímum sem sótt er að blaðamennsku og fjölmiðlum.
„Öflugt, sameinað félag blaðamanna verður mikilvægur vettvangur fyrir faglegt starf og mun vinna að því að skapa grundvöll fyrir sterka, sjálfstæða fjölmiðla í rekstrarumhverfi sem er meira krefjandi en nokkru sinni,“ segir Sigríður Dögg.
Félag fréttamanna hefur til þessa verið aðildarfélag Bandalags háskólamanna en eftir sameininguna verður félagið starfrækt áfram sem deild í Blaðamannafélaginu.