Banda­ríski í­þrótta­blaða­maðurinn Grant Wahl lést í Katar í gær­kvöldi. Wahl sem var 48 ára, hneig niður á fjöl­­miðla­svæðinu á Lusa­il leik­vang­in­um þar sem leikur Arg­entínu og Hol­lands fór fram á HM í fót­bolta.

Við­bragðs­aðilar á vellinum hlúðu að honum og var hann fluttur með sjúkra­bíl á sjúkra­hús þar sem hann var úr­skurðaður látinn, sam­kvæmt BBC.

Wahl vakti heims­at­hygli fyrr á mótinu þegar hann mætti í bol með regn­boga­litunum á til stuðnings hin­segin fólks á leik Banda­ríkjanna og Wa­les. Hann fékk að fara inn á völlinn í bolnum og var í haldi lög­reglunnar í rúmar þrjá­tíu mínútur eftir at­vikið.

Sam­kvæmt fyrstur fregnum er sagt að Wahl hafi fengið hjarta­á­fall en það hefur ekki verið stað­fest.

Á heima­síðu sinni á mánu­dag greindi Wahl sjálfur frá því að hann hefði verið veikur. Hann sagðist hafa leitað til læknis sem sagði hann vera með lungna­bólgu og skrifaði upp á sýkla­lyf fyrir hann.

Yfir­lýsingu banda­ríska knatt­spyrnu­sam­bandsins um and­látið má sjá hér að neðan.

Eiginkona Wahls segist einnig vera í áfalli eftir fréttirnar en þakkar öllum þeim sem hafa stutt við bakið á sér síðusta sólarhring.