Meint vanhæfi embættis lögreglunnar á Norðurlandi eystra til að fara með rannsókn á meintum lögbrotum fjögurra blaðamanna í tengslum við símagögn fyrrverandi skipstjóra hjá Samherja, er til meðferðar hjá Héraðsdómi Norðurlands eystra.

Þetta herma heimildir Fréttablaðsins.

Fjórum blaðamönnum var tilkynnt 14. febrúar að þeir hefðu réttarstöðu sakbornings við lögreglurannsókn á brotum gegn ákvæðum hegningarlaga um friðhelgi einkalífs. Voru þeir boðaðir til skýrslutöku af því tilefni.

Einn þeirra, Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Stundinni, krafðist úrskurðar dómara um hvort heimilt væri að boða hann til skýrslutöku vegna málsins.

Fór málið gegnum dómstigin þrjú en því var að lokum vísað frá dómi í Hæstarétti þann 16. mars síðastliðinn.

Ný krafa lögð fyrir dómara

Eftir dóm Hæstaréttar í máli Aðalsteins hefði lögreglu ekki verið neitt að vanbúnaði að boða blaðamennina til yfirheyrslna hefði ekki verið fyrir nýja kröfu annars blaðamanns úr hópi sakborninga, nú vegna meints vanhæfis saksóknarans og alls embættis lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Samkvæmt heimildum blaðsins er niðurstöðu héraðsdóms að vænta eftir helgi.