Li Zehua, 25 ára gamall kínverskur blaðamaður, er horfinn. Hann sagði í síðasta myndbandi sínu sem hann birti á samfélagsmiðlum að ríkislögreglan í Kína væri hugsanlega að elta hann. Talið er að hann sé í varðhaldi.

Blaðamaðurinn hafði sagt upp starfi sínu hjá ríkissjónvarpsstöðinni CCTV til þess að fjalla nánar um málin í Wuhan, þar sem kórónaveiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum á uppruna sinn að rekja.

„Ég var á götunni og einhver, ég veit ekki hver, hugsanlega ríkislögreglumaður, byrjaði að elta mig. Ég er að keyra mjög hratt. Hjálpið mér,“ sagði hann í einu myndbandinu sem hann birti áður en hann hvarf. Fjallað er um þetta á vef Guardian.

Blaðamaðurinn hafði áður greint frá því hvers vegna hann sagði starfi sínu lausu. Myndbandið birtist á Weibo og Youtube en hefur nú verið eytt af vefnum en í lok myndbandsins sjást tveir karlmenn koma inn í íbúðina. Kínverskir netverjar hafa verið að deila myndböndum frá honum um netmiðla eftir að þau voru tekin niður.

Neðst í fréttinni má sjá síðasta myndbandið sem hefur verið birt af honum en tveir karlmenn sjást ganga inn í íbúðina hans alveg í lok myndbandsins. Hann hafði þá verið að streyma myndefninu í beinni. Vinur blaðamannsins fylgdist með handtökunni í beinni og birti síðan myndbandið að sögn IB Times.

„Ég vildi ekki þegja lengur, eða loka augunum og eyrunum. Það er ekki eins og ég geti ekki átt gott líf, með konu og börn. Ég get alveg gert það. Ég geri þetta í von um að ungt fólk eins og ég rísi á fætur,“ sagði hann við áhorfendur sínar áður en útsendingunni lauk skyndilega.

Pólitísk vitundarvakning hefur átt sér stað í Kína vegna fregna af kórónaveirunni. Kínverjar eru reiðir stjórnvöldum fyrir að takmarka tjáningarfrelsi borgara sinna. Reiðin magnaðist eftir andlát kínverska læknisins Li Wenliang, sem varaði fyrst við kórónaveirunni og voru heilbrigðisyfirvöld í Kína sökuð um þöggun.

Staðan í Wuhan er slæm og hefur kórónaveiran haft áhrif á nánast alla íbúa borgarinnar. Skortur er á birgðum og eru ótalmargar fjölskyldur í sóttkví og einangrun á heimilum sínum. Gríðarlegt álag er á heilbrigðisstarfsmönnum.

Sjálfstæðir kínverskir blaðamenn segja veiruna hafa komið upp um mikla spillingu og varpað ljósi á ritskoðunina sem á sér stað á ríkisreknum fjölmiðlum í Kína.