Blaða­kona og töku­maður frá banda­rísku frétta­stöðinni Fox News létust í Úkraínu þegar bíllinn þeirra varð fyrir skotum í út­jaðri Kænu­garðs. Blaða­maðurinn Benja­min Hall frá sömu frétta­stöð særðist illa og dvelur á spítala.

Fjöl­miðla­fólkið var allt í Úkraínu að flytja fréttir af stríðinu. Blaða­konan, Oleksandra Kuvs­hin­ova, var að­eins 24 ára gömul og hafði starfað fyrir Fox News í mánuð. Töku­maðurinn, Pi­er­re Zakrewski, hafði unnið fyrir Fox um ára­bil og flutt fréttir víða af stríðs­svæðum og á­tökum. Hann var 55 ára gamall.

Starfs­fólk hjá Fox News hefur margt skrifað hjart­næmar kveðjur til Zakrewski og Kuvs­hin­ova undan­farna sólar­hringa. Yonat Friling, fram­leiðandi fyrir Fox News, er meðal þeirra en hún skrifað kveðjur til þeirra á Twitter.

„Í árás gær­dagsins ná­lægt Kyiv töpuðum við fal­legri, hug­rakkri konu – Oleksandra Kuvs­hin­ova – Sasha. Hún elskaði tón­list og hún var fyndin og góð­hjörtuð. Hún var 24 ára. Hún vann með teyminu okkar síðast­liðinn mánuð og stóð sig með prýði. Megi minning hennar vera blessun,“ skrifaði Friling.

„Ég er harmi slegin. Við höfum misst magnaðan töku­mann, blaða­mann og vin. Pi­er­re var drepinn í Hor­enka, í út­jaðri Kyiv, Úkraínu. Pi­er­re var með Benja­min Hall í gær þegar bíllinn þeirra varð fyrir skotum. Dýpstu sam­úðar­kveðjur til Michelle sem hann elskaði svo inni­lega,“ skrifaði Friling.

Fox News var með inn­slag í gær þar sem minningu Zakrewski og Kuvs­hin­ova var heiðruð. Inn­slagið má sjá hér að neðan.

Fleira blaða­fólk hefur þegar látið lífið í stríðinu í Úkraínu. Banda­ríski blaða­maðurinn Brent Renaud lést síðast­liðinn sunnu­dag og sam­kvæmt for­manni mann­réttinda­mála hjá úkraínska þinginu hafa minnst tveir úkraínskir blaða­menn einnig látið lífið í á­tökunum.