Stjórn Blaðamannafélags Íslands (BÍ) hefur ákveðið að draga fulltrúa sína út úr starfi fjölmiðlanefndar. Í tilkynningu BÍ segir að ástæða ákvörðunarinnar sé „eðlisbreyting“ á starfi nefndarinnar að undanförnu, þar sem nefndin hefur úrskurðað og gefið álit sitt á grundvelli 26. gr. fjölmiðlalaga um lýðræðislegar skyldur fjölmiðla. BÍ segir nefndina seilast of langt með umfjöllun um vinnubrögð og fréttamat blaðamanna í einstökum málum.

Í 1. málsgrein 26. gr. fjölmiðlalaga segir: „Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars. Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni í fréttum og fréttatengdu efni og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.

Álit snúast um vinnubrögð og fréttamat

Í tilkynningu BÍ segir að áður hafi verið vísað í greinina samhliða umfjöllun um önnur mál. „Tvö síðustu álit nefndarinnar sem birt eru á heimasíðu hennar snúast hins vegar gagngert um vinnubrögð og fréttamat blaðamanna í einstökum málum og eru til komin vegna kvartana sem nefndin telur sig þurfa að rannsaka, úrskurða um og gefa álit sitt á,“ segir í tilkynningu BÍ, og er vísað til álita fjölmiðlanefndar vegnaumfjöllunar RÚV á verktakafyrirtækinu Menn í vinnu ehf. og umfjöllunar Vísis á trúfélagi Zúista.

Stjórn BÍ segir í tilkynningu sinni að við samþykkt 26. gr. á Alþingi hafi verið tekið sérstaklega fram að greinin væri refsilaus og einungis um stefnuyfirlýsingu að ræða. „Blaðamannafélagið óskaði eftir upplýsingum frá fjölmiðlanefnd um viðmið sem nefndin setti  varðandi það hvaða og hvers konar mál húni teldi ástæðu til að fjalla um. BÍ skilur þau svör þannig að nefndin teldi sér skylt að fjalla um öll mál í fjölmiðlum á grundvelli rannsóknar- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga,“ segir í tilkynningunni.

Nefndin komin langt út fyrir valdsvið sitt

Að lokum segir að það sé álit BÍ að nefndin sé komin langt út fyrir valdsvið sitt og að það sé einboðið að fulltrúar félagsins geti ekki tekið þátt í starfi fjölmiðlanefndar „meðan nefndin er á þessari óheillabraut“. Eins verður því beint til félagsmanna BÍ að íhuga hvort að erindi frá fjölmiðlanefnd varðandi 26. gr. fjölmiðlalaga séu svaraverð.

Engar heimildir til að sekta fjölmiðla

Fjölmiðlanefnd birti svo, að gefnu tilefni, svar sitt við erindi BÍ. Í bréfinu segir að nefndin taki ekki mál er varða 26. gr. fjölmiðlalaga til athugunar að eigin frumkvæði. Eins áréttar nefndin að hún hafi „engar heimildir að lögum til að beita fjölmiðla stjórnvaldssektum vegna brota á ákvæðinu“ en hún geti birt álit sitt þeirra.

Í svarbréfinu er saga 26. gr. fjölmiðlalaga rakin og fjallað um siðareglur BÍ á níu blaðsíðum. Hægt er að lesa svarið hér. Í lokaorðum bréfsins segir að fjölmiðlanefnd fái það ekki séð hvers vegna BÍ telur erindi sitt brýnt, „í ljósi þess að útvarpsréttarnefnd og síðar fjölmiðlanefnd hefur verið gert að hafa eftirlit með ákvæðum laga um lýðræðislegar grundvallarreglur í rúm þrjátíu ár“.

Eðlilegt í alvarlegri tilvikum

Eiríkur Jónsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands og höfundur bókarinnar Fjölmiðlaréttur sem kom út á síðasta ári, segir að hann hafi upprunalega mælt gegn því þegar hann var beðinn um umsögn um það frumvarp sem varð að fjölmiðlalögum, að fjölmiðlanefnd yrðu veittar heimildir til að bregðast við meintum brotum á 26. gr. fjölmiðlalaga. Niðurstaða Alþingis þá hafi verið að ákvæðinu fylgdu engar heimildir. „Árið 2013 bætti Alþingi hins vegar við þessari heimild nefndarinnar til að skila áliti, svo það er alveg klárt að nefndin hefur heimild til þess að skila áliti um ætluð brot gegn 26. grein. Svo er það bara spurning um hvernig heimildinni er beitt og hversu langt fólk vill og telur eðlilegt að ganga í þeim efnum,“ segir Eiríkur í samtali við Fréttablaðið. Vísar hann til 3. málsgreinar 11. gr. fjölmiðlalaga sem segir á nefndinni sé heimilt að ljúka málum vegna brota á lögunum með birtingu álits.

Eiríkur, sem var jafnframt fyrsti formaður fjölmiðlanefndar, segir að honum finnist heppilegast að 26. gr. sé í meginatriðum almennt stefnumark og meginregla um starfsemi fjölmiðla, sem m.a. geti haft þýðingu fyrir dómi. „Þar sem fjölmiðlanefnd hefur þessa heimild er svo sem alveg eðlilegt að þetta sé leyst svona með áliti í alvarlegri tilvikum,“ segir Eiríkur. Á hinn bóginn sé stjórnsýsluvæðing meiðyrðamála almennt séð býsna varasöm, m.a. með tilliti til tjáningafrelsisákvæðis stjórnarskránnar. Eiríkur tekur fram að hann þekki ekki til þeirra tilteknu mála sem séu að valda umræddum deilum nú og geti því ekki haft skoðun á því hvort of langt hafi verið gengið í þeim tilvikum. Mikilvægt sé hins vegar að sem mest sátt ríki um starfsemi fjölmiðlanefndar.

Hvað er fjölmiðlanefnd?

Fjölmiðlanefnd er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir undir mennta- og menningarmálaráðherra. Hlutverk nefndarinnar er að annast eftirlit og leyfisveitingar samkvæmt fjölmiðlalögum. Ráðherra skipar fimm manns til setu í nefndinni, fjögur ár í senn. Tveir þeirra eru skipaðir samkvæmt tilnefningu Hæstaréttar, einn samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins og einn samkvæmt tilnefningu Blaðamannafélag Íslands. Ráðherra tilnefnir svo þann fimmta án tilnefningar.