Sahar K hodoa­yari var stuðnings­maður vin­sælasta liðs Írans, Esteg­hlal, og vildi sjá leik með liðinu í mars gegn Al-Ain enda var það stór­leikur í Meistara­deild Asíu. Konur mega ekki fara á völlinn í landinu og dul­bjó Sahari því sig sem karl­mann. Margar konur beita því ráði. Því miður fyrir Sahar þá sá sið­ferðis­lög­regla við henni og var hún leidd út af leik­vellinum í járnum og hent í hið al­ræmda Shahr-e Rey fangelsi. Það er gamalt kjúk­linga­bú, sam­kvæmt frétt Am­ne­sty, og eru konur geymdar þar sem voga sér að brjóta hin hei­lögu lög landsins. Fangelsið er yfir­fullt og að­stæður allar heldur ó­geð­felldar, segir enn fremur á heima­síðu Am­ne­sty.

Sahar dvaldi í fangelsinu í tvo daga áður en henni var sleppt. Sam­kvæmt við­tali við systur Sahar sem Human Rig­ht Watch vitnar í glímdi Sahar við geð­hvarfa­sýki og sagði systir hennar að heilsu hennar hefði hrakað mikið eftir dvöl hennar innan veggja fangelsisins. Henni var gert að mæta fyrir dóm vegna glæpa sinna þann 2. septem­ber.

Á­kærurnar voru tvær. Að fara út meðal al­mennings án hi­jab slæðu og móðga lög­reglu­mann. Málinu var reyndar frestað en hún átti yfir höfði sér sex mánaða dóm hið minnsta, sam­kvæmt f lestum fréttum. Sahar gekk út úr dóms­húsinu í Teheran, hellti bensíni yfir sig og kveikti í. Hún var f lutt á sjúkra­hús en lést þar viku síðar af sárum sínum.

Samstaða fólks með málstað íranskra kvenna er sterkt.
Fréttablaðið/Getty

Al­þjóða knatt­spyrnu­sam­bandið, FIFA, sendi sam­úðar­kveðju í ör­stuttri yfir­lýsingu degi síðar og í­trekaði kröfu sína um að konum yrði leyft að fara á leik­velli í landinu. Yfir­lýsingin var stutt og ekki birt á heima­síðu FIFA. Það er ekki einu sinni vitað hvort þetta sé opin­ber yfir­lýsing frá FIFA al­mennt eða bara nokkur orð á Twitter frá sam­skipta­deild sam­bandsins.

Yfir­lýsingin féll í grýttan jarð­veg á sam­fé­lags­miðlum og þar tætti fólk hana al­mennt í sig. Síðan hefur sam­bandið þagað á meðan heims­þekktir leik­menn og fé­lög hafa tjáð sig. Sahar fékk fljótt viður­nefnið Blu­egirl, því litir Esteg­hlal eru bláir. Meira að segja knatt­spyrnu­menn í Íran tjáðu sig um dauða hennar.

Fyrir­liði lands­liðsins, Masoud Shoja­ei, sagði eftir að liðið tapaði fyrir Hong Kong 11. septem­ber; Sam­úðar­kveðjur, stúlkur Írans. Í dag töpuðum við því Sahar var ekki með okkur. Upp­á­halds­liðið hennar, Esteg­hlal, var með mínútu þögn á æfingar­svæði sínu og spilaði í búningi sér­merktum Blu­egirl í vikunni. Það gerði Per­sepolis, aðal­keppi­nautarnir í Teheran, einnig.

Meira að segja Paul Pogba, leik­maður Manchester United tísti um málið. Pogba er ein stærsta stjarna knatt­spyrnunnar þó hann sé eins og flestir aðrir knatt­spyrnu­menn upp­fullir af sjálfum sér. Að hann léti í sér heyrast þóttu sterk skila­boð því knatt­spyrnu­menn eru ein­stak­lega hræddir við að tjá sínar per­sónu­legu skoðanir af ein­hverjum á­stæðum. Ítalska fé­lagið Roma og þýska fé­lagið Fortuna Dus­seldorf, sem Atli Eð­valds­son lék með forðum daga, breyttu liðs­merkjum sínum í blátt til minningar um Sahar.

Chelsea og Barcelona sögðu að allir ættu að geta séð fót­bolta á vellinum í tístum. Svona mætti á­fram telja. Knatt­spyrnu­konur hafa einnig látið þetta mál sig varða. Mark­vörðurinn Hed­vig Lindahl, sam­herji lands­liðs­fyrir­liðans Söru Bjarkar, hjá Wolfs­burg og reyndar fjöl­margar sænskar lands­liðs­konur hafa bent á ó­rétt­lætið og krafist svara. Fifa hefur sem fyrr þagað þunnu hljóði.

Íranskar konur dulbúa sig til að fylgjast með fótbolta.
Fréttablaðið/Getty

Mega mæta í októ­ber?

FIFA krafðist þess reyndar fyrr í sumar að Íran sendi frá sér á­ætlun um hve­nær konum verður leyft að kaupa miða á leiki í undan­keppni heims­meistara­mótsins. Þá er á á­ætlun FIFA að kíkja á næstu vikum til landsins, en þó kom fram að það væri ekki vegna dauða Sahar. Ráð­herra í­þrótta­mála í Íran, Jams­hid Tahiza­de, hefur látið hafa eftir sér að engin sér­stök tíma­mörk hafi verið sett, en yfir­völd þar í landi séu að vinna að nauð­syn­legri inn­viða­upp­byggingu til þess að hægt sé að hleypa konum inn á leik­vanga. Hver sú upp­bygging er var ó­sagt.

Lög FIFA eru skýr hvað varðar að mis­muna konum og getur sam­bandið refsað Íran með sekt eða brott­vísun frá mótum. Í júní varaði for­seti FIFA, Gianni Infantino, Írani við því að við­halda banninu. Íranir hafa á­kveðið að á næsta heima­leik lands­liðsins á Azadi-vellinum fái konur að mæta og hvetja liðið á­fram. Trú­lega verður það gegn Kambódíu í októ­ber. Þó hand­tók sið­ferðis­lög­reglan fjórar konur fyrir að mæta á völlinn síðast í ágúst.

Í frétt BBC frá því í maí 2018 kemur fram að konur í Íran mæti tölu­vert á völlinn og leggi því­líkt á sig til að dul­búast og sleppa þannig frá sið­ferðis­lög­reglunni. Þær líma á sig skegg, setja á sig hár­kollur og ýmis­legt fleira. Þá segir að 35 konur hafi verið hand­teknar á síðasta ári fyrir að fara á völlinn. Ekki bara á fót­bolta­völl heldur einnig til að sjá blak, körfu­bolta og aðrar innan­húss­í­þróttir. Konur máttu horfa á körfu­bolta­leik í Teheran í fyrra en urðu að sitja á sér svæði, fjarri karl­mönnum.

Ekkert í lögunum

Það merki­lega er að lög um að banna konur frá í­þrótta­völlunum er hvergi að finna í laga­bók­staf Írans sam­kvæmt BBC. Þetta er bara eitt­hvað sem hefur verið við lýði síðan byltingin var gerð 1979 og er fram­fylgt af hörku. Snemma á þessu ári var 2.000 manns bætt í sið­ferðis­lög­reglu landsins.

Philip Lut­her, lög­fræðingur Am­ne­sty, sagði í vikunni að dauði Sahar væri enn eitt dæmið um hvernig laga­um­hverfi í Íran væri sett upp til að ná til kvenna. „Eini glæpur hennar var að vera kona í landi þar sem þeim er mis­munað og refsað grimmi­lega. Við vitum ekki um neitt annað land sem bannar konum að mæta á leiki, hvað þá refsar þeim fyrir það.“

Í lögum Írans er sagt hvernig konur eigi að klæða sig og ef kona ætlar að yfir­gefa landið þurfa þær leyf i frá eigin­mönnum sínum. Þannig gat fyrir­liði Íranska kvenna­lands­liðsins í fu­t­sal, Niloufar Ardalan, ekki keppt á Asíu­leikunum árið 2015 því eigin­maður hennar leyfði það ekki.

Í grein í The New York Times segir að hand­töku­skipun hafi verið gefin út á Saba Kamali, sem er fræg leik­kona í Íran, því hún skrifaði á Insta­gram til stuðnings Sahar. Sagði þar að Sahar hefði þjáðst meira en Hussain ibn Ali, barna­barn Múhameðs spá­manns. Hún fjar­lægði færsluna.

Vonast er til þess að alþjóðasamfélagið taki höndum saman og fái Írani til að aflétta þessu fáránlega banni.
Fréttablaðið/Getty

For­eldrar Sahar stigu fram í vikunni í við­tali við The Financial Times og viður­kenndu að þau hefðu frekar viljað að dóttir þeirra hefði horft á leikinn í sjón­varpinu en ást hennar á fót­bolta hefði dregið hana á völlinn. „Á meðan þeir sem stálu landinu okkar ganga frjálsir þurfti sak­laus stúlka að fara í fangelsi og svo deyja. Hvernig er hægt að með­taka það án þess að vilja deyja úr sorg?“ var meðal annars haft eftir móður hennar, Zari.

Knatt­spyrna er gríðar­lega vin­sæl í Íran og sagði Ali Ka­rimi, sem er af mörgum talinn vera besti leik­maður Írans frá upp­hafi og stundum kallaður Mara­dona Írans, að hann ætlaði ekki að mæta oftar á völlinn þar til breytingar yrðu gerðar. Fyrr­verandi for­maður knatt­spyrnu­sam­bands Írans, Dariush Mo­stafavi, sagði að hand­taka Sahar hefði skaðað orð­spor Írans í knatt­spyrnunni.

Orð að sönnu því knatt­spyrnu­heimurinn horfir nú til Írans með undrunar­svip og hneykslast á fram­ferði landsins gegn konum. Gallinn er að á meðan FIFA gerir lítið í því að fram­fylgja sínum eigin lögum eru konur á­fram lamdar, á­reittar og hand­teknar fyrir að mæta á völlinn í Íran.

Sahar er syrgð um víða ver­öld og vonast er til að al­þjóða­sam­fé­lagið taki höndum saman og fái Írani til að af létta þessu fá­rán­lega banni. Hvort það takist mun tíminn leiða í ljós. Þangað til þurfa konur að líma á sig skegg, setja á sig hár­kollur og ýmis­legt fleira ætli þær sér að sjá upp­á­halds­lið sín spila.