Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og móðir landsliðsmannsins Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, segir stemninguna í höllinni í Kristianstad í Svíþjóð í dag vera ótrúlega.
„Þetta er stórkostleg stemning. Ég hef farið á mörg mót en bláa hafið hefur aldrei verið kröftugra eða eins áhrifamikið og það er núna,“ segir hún en hún er eins og þúsundir annarra Íslendinga stödd á stuðningsmannasvæðinu á vellinum í Kristianstad þar sem Ísland keppir við Ungverjaland í kvöld.

„Það er ótrúleg stemning og mikil stemning sem strákarnir eru að fá í gegnum fólkið sem kemur hvaðanæva að,“ segir Þorgerður.
Hún segir að fólk átti sig alveg á því að Ungverjarnir séu hrikalega sterkir.
„Þeir eru öflugir línumenn og hávaxnir en stemningin fyrir utan er liðinu til góðs. Það er mikil gleði og samheldni,“ segir Þorgerður.

En þetta er persónulega líka spennandi, fyrir þig?
„Jú, maður auðvitað er stressaður eins og örugglega allir foreldrar eru sem eru að fara að horfa á þennan leik. En þetta er frábært lið og þjálfari sem við erum með og það er ástæða til að vera jákvæður. En þetta er vinna. Það er einn leikur í einu og við vitum að það þarf að vinna þennan. Ef okkur tekst það þá eru okkur allir vegir færir þannig þetta er „make or break,“ segir Þorgerður og að með heppni og góðu dagsformi þá muni þetta enda vel í kvöld.
