Við aflrás BMW X3 30e er 8 gíra Steptronic sjálfskipting BMW og xDrive fjórhjóladrif. Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst er 6,1 sek, meðaleyðslan er aðeins 2,1 l/100 km og CO2 losun 49 g. Við rafmótor bílsins er 12 kWh rafhlaða sem gerir ökumanni kleift að aka allt að 50 km eingöngu á rafmótornum (skv. WLTP) og ræðst drægnin m.a. af felgustærð, aukabúnaði, veðurskilyrðum og aksturslagi ökumanns.

Sportjeppinn BMW X3 hefur verið einn söluhæsti bíll BMW undanfarin ár og hafa yfir 1,5 milljónir eintaka selst síðan hann kom á markað 2003. Bíllinn er búinn ríkulegum staðalbúnaði á sviði öryggis og þæginda eins og hægt er að kynna sér í verðlista á heimasíðu BL. Nýr BMW X3 30e Plug-In Hybrid er fáanlegur í þremur útbúnaðarútfærslum og kostar grunngerð bílsins 7.190 þúsundir króna.