Eins og fram kemur í leiðréttingu BL á bílavef mbl.is á innköllunin alls ekki við hvern einasta tengiltvinnbíl sem BMW og Mini hafa framleitt. „Af þeim tengiltvinnbílum sem framleiddir voru á ofangreindu tímabili flutti BL inn 53 og af þeim bíða 23 innköllunar í samráði við eigendur. Um er að ræða hugbúnaðaruppfærslu, hleðslu og aflestur til að sannreyna nauðsynleg öryggisatriði,“ segir í leiðréttingunni.

Er innköllunin vegna framleiðslugalla í raf hlöðu sem geta verið mengaðar af efnum sem ekki eiga að vera í þeim. Er talinn möguleiki á skammhlaupi vegna þessa og jafnvel íkveikju í verstu tilfellum. Alls er um 26.700 ökutæki að ræða á markaðssvæðum víða um heim. Ford hefur nýlega innkallað Kuga tengiltvinnbíla en þeir nota rafhlöðu frá sama framleiðanda. Talsmaður BMW Group lét hafa eftir sér að búið væri að stöðva sendingar á tengiltvinnbílum fyrirtækisins sem hluta af fyrirbyggjandi aðgerðum. „Innri rannsókn hefur leitt í ljós að í örfáum tilfellum hafi smáagnir komist inn í rafhlöðurnar í framleiðsluferlinu. Þegar rafhlaðan er fullhlaðin getur það leitt til skammhlaups, sem gæti leitt til bruna. BMW biður kaupendur afsökunar, en öryggið þarf að koma á undan öllu öðru,“ sagði talsmaður BMW Group.