MG Marvel R Electric 4WD er búinn þremur rafmótorum; einum að framan og tveimur að aftan. Bíllinn er 288 hestöfl, drægni rafhlöðunnar er um 370 km og snerpan úr kyrrstöðu í 100 km/klst. 4,9 sekúndur enda togið um 665 Nm. MG Marvel R Electric 2WD hefur tvo rafmótora við drifrásina að aftan sem gefa 180 hestöfl og 410 Nm tog. Snerpa úr kyrrstöðu í 100 km/klst. 7,9 sekúndur. Bíllinn hefur um 402 km drægni og hámarkshraði MG Marvel R Electric óháð útfærslum er takmarkaður við 200 km/klst.

Í MG Marvel R Electric er 70 kWh rafhlaða sem unnt er að hlaða úr 5% í 80% á aðeins 43 mínútum. Þá er bíllinn einnig búinn svokölluðu vehicle-to-load rafkerfi sem leyfir tengingu við annað og ótengt rafkerfi til að hlaða loftdælu, fartölvu eða rafskutlu svo dæmi sé tekið. Raunar er hægt að hlaða annan rafbíl með orku frá MG Marvel R Electric. Bíllinn er tæplega 4,7 m langur, rúmir 1,9 m á breidd og 1,7 m á hæð. Hjólhafið er um 2,8 m og farangursrými í skotti er 357 lítrar og alls 1.396 lítrar með niðurfelldum sætisbökum.

Marvel R Electric er búinn 19,4 tommu snertiskjá og rúmlega 12 tommu stafrænu mælaborði.

MG Marvel R Electric 2WD Luxury kostar frá 6.299 þúsundir króna og Performance 4WD frá 6.999 þúsundir króna. Sala MG Motor í Evrópu á fyrri hluta ársins nam um 21 þúsund bílum. Auk Íslands eru umboðsaðilar MG nú um tvö hundruð á meginlandinu og Bretlandi og býst framleiðandinn við að í árslok verði þeir orðnir um fjögur hundruð talsins.