Þing­festing á máli Sveins Margeirs­sonar, fyrr­verandi for­­stjóri Mat­ís, fer fram fyrir há­degi í dag en hann var á­kærður á­samt Þresti Er­lings­syni, bónda í Birki­hlíð á Skaga­firði, af lög­­reglu­­stjóranum á Norður­landi vestra fyrir brot á lögum um slátrun og slátu­r­að­­ferðir. Þröstur ræddi málið í út­varps­þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun og sagði nauð­syn­legt að reglum um heima­slátrun yrði breytt.

Slátruðu lömbunum sjálfir

Þröstur og Sveinn gerðust sekir um dreifingu og sölu á heima­slátruðu lamba­kjöti á bænda­markaði í Hofs­ósi á síðasta ári. Í kjöl­farið voru þeir kærðir fyrir lög­brot. Það kom heldur flatt upp á Þröst sem sagði söluna hafa verið gerða til að sýna fram á að hægt væri að stunda heima­slátrun sam­kvæmt reglum Mat­ís.

Sveinn sagði í sam­tali við Bænda­blaðið á sínum að hann hafi talið sig ver að sinna hlut­verki Mat­ís, sem væri að auka verð­mæti land­búnaðar­af­urða og bæta mat­væla­öryggi. Sveini var sagt upp störfum í desember síðast­liðnum vegna „trúnaðar­brests“ eftir að hann tók þátt í téðu heima­­slátrunar­­verk­efni.

Bóndinn má ekkert gera

„Við vissum að við værum með svo­kallaða smá­borgara­lega ó­hlýðni,“ sagði Þröstur í morgun en bætti við að það einungis hafa verið gert til að koma um­ræðunni af stað. Hann tekur fram að heima­slátrun verði aldrei allra en bjóði þeim bændum sem hafa á­huga upp á fleiri mögu­leika.

„Bóndinn má ekkert gera nema slátra fyrir sig og sína fjöl­skyldu,“ sagði Þröstur og gantaðist með að um leið og kjötið væri komið út fyrir girðingu þætti það stór­hættu­legt. Eini lög­legi val­mögu­leiki bænda að sögn Þrastar er að fara með sínar vörur í af­urða­stöðvar.

Skilur ekki að þetta sé lög­legt

„Ég skil ekki að það sé lög­legt að þú megir ekkert gera með vöruna þína annað en að fara með hana á einn stað og sá sem tekur við henni á­kveður sjálfur verðið á vörunni.“ Bændur fái þar lítið fyrir sitt og borgi þar að auki fyrir þjónustuna. „Nú þegar borga ég 12 hundruð þúsund í slátur­kostnað af þessum lömbum mínum og það er tölu­verður peningur.“

Þröstur segir bændur fá um fjögur hundruð krónur fyrir kílóið hjá slátur­húsum en að arður fyrir heima­slátrun sé um fjór­tán hundruð krónur á kílóið. „Gæði kjötsins eru líka engan vegin nógu góð hjá af­urða­stöðvum.“

Afurðarstöðvar mega einar sjá um slátrun á lömbum á Íslandi.
Fréttablaðið/Pjetur

Einir í bar­áttunni

Að sögn Þrastar er fjöldi bænda hlynntur heima­slátrun þrátt fyrir að svo virðist sem þeir Sveinn séu einir í bar­áttunni. „Það er feikna­stuðningur en það heyrist lítið í þeim.“ Hann sagði marga fylgjast spennta með fram­göngu málsins en gat ekki út­skýrt þögnina frá bænda­sam­tökum.

„Ég skora á bændur að láta heyra í sér og al­þingis­menn að gera eitt­hvað í þessu,“ sagði Þröstur. Að hans mati er búið að draga allar tennurnar úr Land­búnaðar­ráðu­neytinu sem hafi verið skotið ofan i skúffu á síðustu misserum. Þá ríki nú ein­kenni­leg þróun í sam­fé­laginu þar sem allar vörur hækka í verði að undan­skildum land­búnaðar­vörum. Bændur sitja einir eftir með sárt ennið.