„Það var alltaf partur af mér sem bjóst við því að hann yrði kallaður eitthvað með stuttum fyrirvara. Ég bjóst við því að það yrði Borgarnes, en Kaupmannahöfn er kannski meira töff,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í morgunútvarpinu á Rás 2 um fund sinn og Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra, sem var frestað síðdegis í gær. Fundurinn átti að fara fram snemma í dag.
Mál ríkissáttasemjara gegn Eflingu verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur um hádegisleytið í dag. Málið varðar félagatal Eflingar sem sáttasemjari vill fá afhent vegna miðlunartillögu sinnar í deilum stéttarfélagsins og Samtaka atvinnulífsins.
Sólveig segist ekki vita við hverju hún býst við í fyrirtökunni, „en það sem ég veit er að Efling ætlar ekki að afhenda félagatalið. Það er okkar afstaða og við munum auðvitað grípa til varna í þessari fordæmalausu árás á lýðræði innan félagsins,“ segir hún.
Spurð út í hvað gerist ef þau tapi málinu segir Sólveig: „Það er góð spurning. Við skulum sjá hvað gerist. Það er alltaf erfitt þegar svona stórir atburðir eru í gangi, sem maður hefur sjálfur ekki upplifað áður og eru fordæmalausir, að spá fyrir um hvað gerist.“
Í gærkvöldi greindi RÚV frá því að bæði Guðmundur Ingi og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, ráðherrar Vinstri grænna ætli sér ekki að beita sér fyrir kröfu um brottvikningu sáttasemjara.
„Það sem ég á auðvitað erfitt með að skilja að einhverju leiti er hvers vegna VG kjósa að gera þennan hóp, verka- og láglaunafólks, [...] að óvinum sínum. Það er undarlegt og næstum því óskiljanlegt,“ segir Sólveig.