Kortasjá um aftökur á Íslandi verður opnuð klukkan 15 í dag. Hún er unnin í tengslum við verkefnið Dysjar hinna dæmdu sem hrundið var af stað vorið 2018. Þeir sem unnið hafa að verkefninu rannsökuðu dómabækur og annála í leit að dauðadómum. Þegar hafa fundist 248 dómar en Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur segir að líklega séu þeir mun fleiri og verkefninu sé ekki lokið.

„Ég bjóst alls ekki við því að þetta væru svona margar aftökur,“ segir Steinunn og nefnir þá sérstaklega tímabilið 1582 til 1792, þar sem var meira en ein aftaka á ári. Hún segir mikilvægt að fjalla um þennan tíma þótt hann sé ekki til að vekja þjóðarstolt. „Það hefur mikið verið fjallað um Alþingi og Drekkingarhyl, en aftökur voru gerðar víða um land.“

Dreifingin er nokkuð misjöfn. Flestar aftökur voru gerðar á suðvesturhorninu, Suðurlandi, Snæfellsnesi, Vestfjörðum, Húnavatnssýslum og í Eyjafirði. Færri í Skagafirði, Þingeyjarsýslum, á Austurlandi og aðeins ein í Skaftafellssýslum. Eitt af því sem er til rannsóknar núna er hvort sýslumenn hafi sýnt mismikla hörku. Þekkt er framganga Þorleifs Kortssonar, sýslumanns í Strandasýslu, í galdrafárinu á 17. öld.

Yfirleitt voru karlar höggnir, konum drekkt, þjófar hengdir og nornir brenndar. Þriðjungur málanna eru þjófnaðir og þriðjungur blóðskömm og dulsmál. Aðrir stórir flokkar eru morð og galdrar. Sjötíu prósent þeirra líflátnu voru karlar og 30 prósent konur.

Sá yngsti var 14 ára

„Þetta var eiginlega allt lágstéttarfólk og oftast í yngri kantinum. Sá yngsti var 14 ára,“ segir Steinunn. „Dæmi eru um að ungar stúlkur hafi verið dæmdar til dauða en svo yfirleitt náðaðar. Þeir sem voru náðaðir voru sendir til Danmerkur, í herinn eða á staði eins og Spunahúsið sem var nánast ígildi dauðadóms.“

Fangaflutningarnir voru miklir og virðist sem svo að kerfisbundið hafi verið reynt að útrýma utangarðsfólki en í dómum er fólkið oft nafn- og heimilislaust. Í kringum aldamótin 1700 fóru tvö skip með 40 „hrausta letingja“ í her Danakonungs.

Harkan stigmagnaðist

Steinunn segir að harkan virðist hafa farið stigmagnandi á þessu tímabili og svokölluðum refsiaukum beitt. Þá var fólk aflimað, limamarið og klipið með glóandi töngum. Árið 1596 var „Axlar-Björn“ Pétursson limamarinn, afhöfðaður, skorinn í stykki og festur á stangir á Laugarbrekkuþingi á Snæfellsnesi.

„Við höfum farið á vettvang, bæði á bæina þaðan sem þetta fólk kom og aftökustaðina sjálfa. Ég trúi ekki á neitt yfirnáttúrulegt en ég viðurkenni að það var mjög áhrifaríkt að koma á þessa staði. Með kortasjánni getur fólk séð hvaða aftökur fóru fram í eigin sveit.“

Fengu val um að deyja eða gerast böðlar

Ýmislegt fleira verður rannsakað í verkefninu, svo sem hvað varð um börn þessa fólks og hverjir voru böðlarnir. „Afbrotamenn fengu stundum val um hvort þeir yrðu teknir af lífi eða myndu sjálfir gerast böðlar,“ segir Steinunn.

Kortasjáin verður formlega opnuð klukkan 15 í dag í Kaffi Veröld í húsi Vigdísar.