Fjöl­skylda Ant­hony Fauci, helsta sér­fræðings banda­rískra stjórn­valda í smit­sjúk­dómum, hefur mátt sæta hótunum vegna til­mæla hans til banda­rísku þjóðarinnar um að taka kórónu­veirufar­aldurinn al­var­lega. Þetta kom fram í fyrir­lestri sem Fauci hélt á vegum Harvard-há­skóla í dag.

Fauci hefur verið ráð­gjafi ríkis­stjórnar Donalds Trump í far­aldrinum og hefur hann meðal annars komið fram á upp­lýsinga­fundum með for­setanum.

Fauci sagði að í hans villtustu draumum hefði hann ekki getað í­myndað sér að þurfa að sæta hótunum vegna til­mæla eða á­kvarðana sem byggja á vísinda­legum grunni. Sú er þó raunin og hefur fjöl­skylda Fauci gripið til ráð­stafana til að tryggja öryggi sitt.

Af ríkjum heimsins hafa lang­flest til­felli CO­VID-19 greinst í Banda­ríkjunum en reikna má með því að stað­fest til­felli fari yfir 5 milljónir þar á allra næstu dögum. Rúm­lega 160 þúsund manns hafa látist í far­aldrinum í Banda­ríkjunum til þessa.

Fauci gagn­rýndi það í erindi sínu að þörf væri á sam­stilltari að­gerðum innan Banda­ríkjanna til að vinna bug á veirunni. Á sama tíma og sum ríki grípa til harðra að­gerða grípa önnur til vægari úr­ræði. Það segi sig sjálft að það gangi ekki upp að vinna bug á veirunni þannig.

„Svo lengi sem ein­stakir hópar í þjóð­fé­laginu beita ekki öllum ráðum til að ráða niður­lögum veirunnar mun hún halda á­fram að láta til sín taka,“ sagði hann.

Þá talaði Fauci einnig um það van­traust sem virðist ríkja í garð vísinda­manna sem hann rekur til van­trausts í garð yfir­valda. Sumir líti á vísinda­menn sem hluta af yfir­völdum þó þeirra hlut­verk sé ein­fald­lega að koma vísinda­þekkingu sinni á fram­færi. Ýmsar á­kvarðanir væru „stjórn­mála­væddar“ ef svo má segja, til dæmis þau til­mæli að bera skuli and­lits­grímur til að forðast smit.

Ekkert lát virðist vera á far­aldrinum í Banda­ríkjunum og hafa um þúsund dauðs­föll orðið að meðal­tali hvern dag undan­farna viku. Far­aldurinn fór aftur á flug í maí og júní eftir að mörg ríki slökuðu á tak­mörkunum sem settar höfðu verið.