Björt Ólafs­dóttir, fyrr­verandi um­hverfis- og auð­lindar­ráð­herra og þing­kona Bjartrar fram­tíðar, segir að það hryggi hana að hlut­hafar kísil­versins á Bakka kanni fjár­mögnunar­leiðir til að bæta fjár­hags­stöðuna. Greint var frá því í Frétta­blaðinu í dag PCC gæti þurft allt að fimm milljarða inn­spýtingu.

Varaði við þessu

Björt segir í færslu sem hún birti á Face­book fyrr í dag að hún hafi varað við þessu. Hún segir að kísílverið á Bakka hafi verið vond byrjun frá upp­hafi og hafi verið keyrð á­fram af fólki til að koma þúsund at­kvæðum í kassann hjá Vinstri grænum í Norð­austur­kjör­dæmi.

„Mikið hryggir þetta mig , og mikið er hund­fúlt að segja I told you so, en við þessu varaði ég og gott fólk í litlum flokki á þingi sem hét Björt Fram­tíð. Kísil­mál­ver á Bakka er, og var alveg frá byrjun vond hug­mynd. Keyrð á­fram af fólki til að koma eit­hvað um þúsund at­kvæðum í NA kjör­dæmi í kassann hjá um­hverfis­flokknum VG. Aðrir flokkar voru sammála, nema ef mig minnir rétt oddviti Pírata á þeim tíma í kjördæminu,“ segir Björt.

Borgað því sem sam­svarar einum Land­spítala

„Ég veit eigin­lega ekki til hvaða stjórn­mála­manna hægt er að höfða til með þessi mál­efni. Nú hafa hægri menn hingað til ekki haft há­væran á­huga á um­hverfis­vernd en horfið á arð­semina: Fljótt til­tekið held ég að stjórn­völd hafi látið al­menning borga um 40-70 milljarða í með­gjöf með þessu öllu. það er einn Land­spítali svona til saman­burðar,“ segir Björt.

Hún segir að það hafi þurft að fram­kvæma ýmis­legt svo af þessu gæti orðið eins og virkja Þeysta­reyki, leggja línur, gera göng og höfn og nýjan fjár­festingar­samning og spyr fyrir hvað það hafi verið.

„Og fyrir hvað? Sót­svart mengandi iðnaðar­ver, sem rekur sig ekki. Og al­menningur er aftur látin borga því að stærstu líf­eyris­sjóðum landsins fannst þetta frá­bært fjár­festinga­tæki­færi. Líf­eyrinn sem þú vinnur þér inn um hver mánaðar­mót átti að á­vaxtast þarna. En það gerir hann nefnin­lega ekki miðað við þessar á­ætlanir. Þá eruð þið beðin um að borga meira inn, leggja meira að veði. Vill fólk það?“ spyr Björt að lokum.

Færslu hennar er hægt að sjá hér að neðan í heild sinni.